139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála fullyrðingunni sem kom síðast fram í ræðu hv. þingmanns. Ég tel að Íslendingar verði ekki búnir að taka það happasæla skref svo fljótt.

Þegar hv. þingmaður talar um það með hvaða hætti þjóðir sem liggja á norðurhvelinu hafa byggt upp hernaðargetu sína á höfunum verð ég að trúa henni fyrir því að ég er henni algjörlega ósammála. Ég held að mjög margir séu það. Ég rifja líka upp að hv. þingmaður skrifaði skýrslu á vegum þingmannasambands NATO og hún var fjári góð. Ég hef lesið hana og kann töluvert í henni. Það er satt að segja besta samantektin sem ég hef lesið um þau mál. Ég er ekki þeirrar skoðunar, en hv. þingmaður getur þá hugsanlega bent mér á eitthvað annað í þeirri skýrslu, að hún hnígi að þeirri niðurstöðu að þar sé um að ræða verulega hernaðaruppbyggingu í norðurhöfum sem miðar að öðru en því að þessi ríki, alveg eins og Ísland, geri ráð fyrir því að norðurhöfin opnist í ríkari mæli á næstu árum og áratugum.

Þau vilja í fyrsta lagi vera búin undir það að geta veitt frá sínum bæjardyrum séð þá þjónustu og þann bakstuðning sem þarf við t.d. vinnslu auðlinda á þessum svæðum, sömuleiðis auknar siglingar. Í þriðja lagi, og ekki skal ég draga úr því, eru þau auðvitað að reka tjaldhæla sína í jörðu og helga sér ákveðinn rétt með viðveru sinni. Ég hef a.m.k. lesið úttektir ýmissa fræðimanna sem telja þvert á móti, og andstætt hv. þingmanni, að ekki sé hægt að túlka þessa hernaðaruppbyggingu með þeim hætti að þarna sé yfirvofandi einhver spenna. Menn tala miklu frekar um að sú spenna sem við sáum þarna áður fyrri sé ekki til staðar og sé ekki að byggjast upp.