139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu með þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ég tel að það sé tímabært, og kannski löngu tímabært, að við í íslenskum stjórnmálum setjumst niður yfir stefnu okkar í þessum málaflokki og mótum tillögur til ályktunar Alþingis um stefnu í þessum málum. Það er líka í samræmi við þær áherslur sem minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hefur haft uppi um allnokkurt skeið, að fara þurfi í stefnumótun á þessu sviði og nálgast þau á nýjan hátt og í raun og veru segja skilið formlega við kalda stríðið og þá hugmyndafræði sem rak það áfram.

Það dylst engum að undanfarna tvo áratugi eða svo hafa miklar og sögulegar breytingar á sviði utanríkis- og öryggismála gengið yfir heiminn. En breytingar hafa líka orðið á öðrum sviðum, t.d. á sviði stjórnmála og viðskipta. Það má segja að eftir langt kyrrstöðutímabil kaldastríðsáranna, þar sem kjarnorkuvígbúið ógnarjafnvægi hélt heiminum í frosnum helgreipum, hafi mikið vatn runnið til sjávar og mikið gerst. Þær breytingar sem ég er hér að vísa til eru að sjálfsögðu upplausn Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins, fall Berlínarmúrsins og þar með gerbreyttar stjórnmálaaðstæður í allri Evrópu. Þær höfðu áhrif um heim allan, en einnig lúta þær breytingar sem ég fjalla hér um að hnattvæðingunni sem orðið hefur, ekki síst á forsendum fjármagns- og stórfyrirtækja, stríðsátökum um olíu og aðrar auðlindir og loftslagsbreytingum, sem mér finnst mikilvægt að draga fram í þessu efni, og síðan að sjálfsögðu að friðar- og öryggismálum.

Ég vil rifja það upp að á sínum tíma, eftir síðari heimsstyrjöldina 1949, völdu Norðurlöndin hvert sína leið þegar hið öryggispólitíska kort var dregið upp. Það átti raunar mikil umræða sér stað á þeim tíma um norrænt varnarbandalag, en Danmörk, Ísland og Noregur völdu Atlantshafsbandalagið á meðan Finnland og Svíþjóð kusu sér hlutleysi. Marga dreymdi samt um það á sínum tíma að Norðurlönd mundu að lokum koma málum sínum að þessu leyti í sameiginlegan farveg, ekki síst af þeirri augljósu ástæðu að Norðurlöndin eiga ríka sameiginlega hagsmuni. Ég vil nefna sérstaklega nýlega skýrslu frá Thorvald Stoltenberg, fyrrum utanríkisráðherra Noregs, sem hér hefur komið til tals, um fyrirkomulag norrænnar samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála, sem hefur verið í sérstakri skoðun.

Mér finnst mikilvægt líka og brýnt að hafa í huga að öryggis- og varnarmál fjalla ekki einvörðungu um hefðbundin stríðsátök eins og reyndin var hér áður fyrr, heldur líka um viðbrögð við umhverfisvá, mengun, náttúruhamförum, farsóttum, og varnir gegn hryðjuverkum. Þannig hefur skilningur manna á hugtakinu öryggi tekið miklum breytingum á undanförnum tveimur áratugum. Í stað þess að miðast eingöngu við ríkisvaldið, hervarnir eða ógnir frá ríkjum eða ríkjabandalögum, eins og á tímum kalda stríðsins, hefur þetta öryggishugtak einmitt verið víkkað út með það fyrir augum að ná yfir annars konar ógnir, þverþjóðlega, eins og það er kallað, eða hnattræna, samfélagslega og mannlega áhættuþætti. Hér má nefna skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk, efnahagskreppur, ólöglega fólksflutninga, mansal, matvælaöryggi, náttúruhamfarir, farsóttir, umhverfisslys og fleira í þeim dúr.

Í því þingmáli sem við erum hér með til umræðu er meðal annars vísað í skýrslu svokallaðrar áhættumatsnefndar frá árinu 2009, en þeirri nefnd var ætlað að fjalla um áhættumat fyrir Ísland. Henni var stýrt af dr. Val Ingimundarsyni prófessor. Mig langar rétt að grípa niður í þá skýrslu. Þar segir meðal annars um öryggismálin í alþjóðlegu samhengi, með leyfi forseta:

„Sú efnahagskreppa, sem nú ríður yfir heiminn í kjölfar fjármálakreppunnar, telst til „nýrra ógna“ og er dæmi um áfall sem getur stefnt samfélagsstöðugleika í víðum skilningi í hættu. Í fræðilegri umræðu um útvíkkun öryggishugtaksins hefur sérstaklega verið fjallað um efnahagsöryggi í tengslum við hernaðar-, umhverfis-, samfélags- og stjórnmálaöryggi. Þó hefur fram að þessu mun meira verið lagt upp úr öðrum hættum eins og „svæðisbundnum átökum“ á 10. áratug 20. aldar (samanber upplausn Júgóslavíu) eða hryðjuverkum eftir árásirnar á Bandaríkin árið 2001. Enginn vafi er þó á því að fjármálakreppan mun hafa víðtæk öryggisáhrif, ekki aðeins á fjármálakerfi heimsins og efnahagsöryggi ríkja heldur einnig aðra þætti eins og félags- og heilbrigðisöryggi samfélaga. Þá má búast við meiri pólitískum óstöðugleika af völdum hennar svo og vaxandi þjóðfélagsátökum.“

Síðar segir í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

„Sú víðtæka öryggisnálgun, sem nú er stuðst við, felur í sér grundvallarbreytingu frá fyrri tímum. Í kalda stríðinu var dregin upp skýr mynd af „óvininum“ og ógnin metin nær eingöngu út frá hernaðarforsendum. Í hnattvæddum heimi hafa myndast „þverþjóðleg áhættusamfélög“ sem eru berskjaldaðri en áður, meðal annars vegna þess að hættur virða ekki landamæri og óvinaímyndir eru mun óljósari.“

Hér kemur skýrt fram að hin hefðbundna hernaðarógn er aðeins hluti þeirra áhættuþátta sem einstökum samfélögum getur verið búin og því má halda fram að hernaðarógnin sé lítil sem engin að minnsta kosti á ýmsum svæðum. Til dæmis segir í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

„Engar vísbendingar eru um að hernaðarógn muni í náinni framtíð steðja að Íslandi.“

Síðan:

„Pólitísk afstaða á alþjóðavettvangi og þátttaka í alþjóðlegum aðgerðum getur hins vegar einnig falið í sér ákveðna áhættu.“

Þessi vinna sem áhættumatsskýrslan er bendir á að sérstaða Íslands sem herlauss aðildarríkis NATO hafi kallað fram tvö ólík sjónarmið:

„Sérstaða Íslands sem herlauss aðildarríkis NATO hefur laðað fram tvö sjónarmið. Annars vegar er talið að Ísland muni ávallt skipta máli á spennu- eða átakatímum í þessum heimshluta vegna legu landsins og því sé höfuðatriði að Íslendingar axli meiri ábyrgð á eigin landvörnum og hafi bolmagn til að eiga samstarf við bandalagsríki í NATO. Stuðningur við loftrýmisgæslu og aukin þátttaka í hermálasamstarfi NATO sé viðleitni til að koma til móts við það viðhorf. Hins vegar er talið að það eigi nú að vera forgangsverkefni að skjóta stoðum undir aðra öryggisþætti en hefðbundnar landvarnir — t.d. sem snúa að öryggi samfélags og grunnvirkja — í ljósi þess að ekkert gefur ástæðu til að óttast spennu eða hernaðarátök á þessu svæði í náinni framtíð. Gera megi ráð fyrir talsverðum aðdraganda, eins og hernaðaruppbyggingu á svæðinu, áður en ógn færi að stafa af öðrum ríkjum. Augljósar og aðsteðjandi hættur sem bregðast þurfi við lúti frekar að samfélagslegu eða borgaralegu öryggi.“

Það er alveg ljóst í mínum huga þegar horft er til þessara tveggja meginsjónarmiða að þá kallast hið fyrra sjónarmið á við gamlar hugmyndir hernaðarhyggjunnar á meðan hið síðara bergmálar nýja sýn og nálgun í öryggismálum. Ég tel sem sagt að við eigum að leggja þessari nýju sýn lið og hafa áhrif á þróun hennar og útfærslu, það séu verulegar líkur á því að sú nálgun geti orðið ofan á í framtíðarstefnumótun Íslands í þessum málaflokki. Með því má segja að kalda stríðið yrði endanlega kvatt og hernaðarhyggjan lyti í lægra haldi í öryggismálum þjóðarinnar. Það er að minnsta kosti það sem ég vil gjarnan beita mér fyrir í þessu efni.

Ég ætla ekki að víkja sérstaklega að málefnum norðurslóða sem hér hafa komið nokkuð til umræðu. Við tókum býsna mikla umræðu um það hér þegar verið var að ræða og fjalla um þingsályktunartillögu um stefnumótun í málefnum norðurslóða og einnig á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem sú tillaga var til umræðu. Ég vil einungis leyfa mér að óska hæstv. utanríkisráðherra og okkur öllum til hamingju með þá stefnumótun sem felst í þeirri tillögu.

Mig langar að benda hér á rétt í lokin að í stefnuskrá míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er lögð áhersla á að Ísland móti sjálfstæða utanríkis- og friðarstefnu. Þar er líka sagt að brýnt sé að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Ákvæði um þetta er einnig að finna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ísland verður friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og íslensk stjórnvöld munu beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.“

Ég tel sem sagt að þetta sé braut sem við eigum að ryðja, frú forseti. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að nú sé lag, að aukinn pólitískur skilningur sé á mikilvægi stefnubreytingar og nýrrar hugsunar og vaxandi samfélagslegur stuðningur við að vopnin verði kvödd.

Ég hlakka til að takast á við þetta þingmál á vettvangi utanríkismálanefndar og er sannfærður um að þar verður mikil og góð umræða. Við munum að sjálfsögðu leita umsagna fjölmargra aðila í samfélaginu og taka svo afstöðu til endanlegs tillögutexta í framhaldi af því.