139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

áfengislög.

705. mál
[18:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áfengisauglýsingar hafa verið bannaðar hér á landi um langan tíma en það hefur verið farið á bak við þetta bann eins og við þekkjum og þetta frumvarp er sniðið til þess beinlínis að koma í veg fyrir slíkar hjáleiðir.

Hvers vegna auglýsa menn? Hvers vegna auglýsa dreifingaraðilar eða framleiðendur? Jú, það er til að koma vöru sinni á framfæri. Ég ætla og gef mér það að þeir hafi nokkurn árangur enda ákafinn mikill að koma auglýsingum fyrir með þeim hætti eins og við öll þekkjum bæði í sjónvarpi og á prentmiðlum. Ég ætla að þetta stuðli að aukinni áfengisneyslu.

Varðandi netið er þetta erfitt en bannið, auglýsingabannið, tekur til allra fjölmiðla. En ég er alveg sannfærður um það, og tek undir með hv. þingmanni, að í ýmsum tilvikum er erfitt að bregðast við slíku banni þegar um er að ræða fjölþjóðlega fjölmiðla en þetta eru íslensk lög sem eiga að taka til íslenskra fjölmiðla og íslensks umhverfis.