139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

áfengislög.

705. mál
[18:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það komi ekki reynsla á það fyrr en bannið hefur verið innleitt. Þá getum við mælt hvort það dragi úr áfengissölu og á svo marktækan hátt að það megi rekja það til auglýsingabannsins. Þetta eru bara hlutir sem við ekki þekkjum vegna þess að við búum við auglýsingar, beinar og óbeinar, og við erum að reyna að banna þær. Við eigum þá eftir að komast að raun um það seinna að hvaða marki bannið ber árangur. Meginhugsunin er sú að framleiðanda eða dreifingaraðila á Íslandi er ekki heimilt að auglýsa áfengi í íslenskum fjölmiðlum. Þetta lagafrumvarp á að stuðla að því að það bann sé virt.