139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

áfengislög.

705. mál
[18:17]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ekki andsvar þó að ég noti þá leið nú til að bæta hér aðeins við. Ég ætlaði ekki að hafa þetta langa ræðu en hún gæti orðið löng með vísan til þess að rökstyðja hvers vegna ég tel að þetta frumvarp eigi að fara til umsagnar heilbrigðisnefndar. Reykingar og áfengisneysla eru sannarlega einn helsti heilsufarsskaðvaldur hér á landi og víðast í hinum vestræna heimi. Það er því ástæða til að horfa á þann þátt þegar við herðum reglur um auglýsingabann og reynum með öllum ráðum að finna svör við þeim klækjum sem koma fram í markaðssetningu á áfengum drykkjum og þá sérstaklega því sem snýr að ungu fólki. Áberandi hefur verið að umboðsmenn áfengra drykkja hafa notað kostun á hljómleikum, tónleikum og öðrum viðburðum sem ungt fólk sækir til að markaðssetja vöru sína.

Út frá heilsufarssjónarmiðum þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að taka undir þá beiðni að heilbrigðisnefnd gefi umsögn um frumvarpið.