139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[18:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili sem felur í sér að úr gildi falla núgildandi lög um nálgunarbann. Með frumvarpinu er leitast við að halda áfram á vegferð undanfarinna ára þar sem réttarstaða brotaþola hefur fengið sérstaka athygli og er frumvarpinu þannig ætlað að styrkja enn frekar réttarstöðu þeirra sem brotið er á og þá sérstaklega þeirra sem mega þola heimilisofbeldi.

Frumvarpið var samið af starfshópi sem skipaður var til þess að gera tillögur að lagaákvæðum til innleiðingar á hinni svokölluðu austurrísku leið. Gerð frumvarpsins er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Var það mat starfshópsins að vel færi á því að ákvæði um nálgunarbann og brottvísun af heimili væri að finna í einum og sama lagabálki enda búa sambærileg sjónarmið að baki beitingu þeirra, sömu málsmeðferðarreglur geta þar átt við og er það jafnframt í samræmi við norræna löggjöf á þessu sviði. Að auki er fyrirséð að úrræðum þessum verður beitt samhliða í nokkrum fjölda tilvika.

Við gerð frumvarpsins átti starfshópurinn fundi með fulltrúum Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Jafnréttisstofu, Samtaka kvenna af erlendum uppruna, Dómarafélags Íslands og ríkislögreglustjóra.

Umræðan um hina austurrísku leið hér í þinginu er ekki ný af nálinni. Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrum þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var ötul talskona þess að leiða austurrísku leiðina í lög og lagði það m.a. til í þessum sal þegar núgildandi lög um nálgunarbann voru sett. Sú breyting náði ekki fram að ganga en þó var því beint til dómsmálaráðuneytisins, sem nú er orðið að innanríkisráðuneyti, að kanna reynsluna af austurrísku leiðinni í nágrannalöndunum og meta hvernig hún félli að íslensku réttarfari.

Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili verði í höndum lögreglustjóra eða löglærðs fulltrúa hans. Slík ákvörðun getur verið tekin á grundvelli beiðnar frá brotaþola sjálfum eða einhverjum honum nákomnum, frá lögráðamanni brotaþola eða þeim sem kemur fram fyrir hönd félagsþjónustu eða barnaverndarnefndar í sveitarfélagi þar sem viðkomandi er búsettur. Lögreglustjóri getur einnig að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar ef ríkir almannahagsmunir, einkahagsmunir eða hagsmunir vegna rannsóknar og/eða dómsmeðferðar sakamáls krefjast þess.

Lögreglustjóra er gert skylt hvort sem um er að ræða ákvörðun um nálgunarbann eða brottvísun að bera hana undir héraðsdóm innan þriggja sólarhringa frá birtingu ákvörðunar en dómaranum er einnig falið að taka endanlega ákvörðun um það hvort nálgunarbanni eða brottvísun verði beitt. Einnig er lagt til að heimilt verði að beita nálgunarbanni ef rökstudd ástæða er til að ætla að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða ef hætta er á því að viðkomandi muni koma til með að gera slíkt. Þá verði heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstudd ástæða er til að ætla að sakborningur hafi framið eða hætta er á að hann fremji refsivert brot gegn tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, t.d. ákvæðum laga um kynferðisbrot, líkamsmeiðingar, brot gegn frjálsræði manna, hótanir, eignaspjöll o.fl., enda hafi verknaðurinn beinst að einhverjum sem er honum nákominn og tengsl þeirra þyki hafa aukið á grófleika verknaðarins. Þá er það enn fremur gert að skilyrði fyrir brottvísun af heimili að brotið varði fangelsi allt að sex mánuðum. Sérstaklega er tekið fram í 6. gr. frumvarpsins að lögreglu sé heimilt að handtaka sakborning á heimili eða þar sem til hans næst í þágu meðferðar og ákvörðunar vegna nálgunarbanns og/eða brottvísunar af heimili. Þá er lagt til að nálgunarbanni og/eða brottvísun verði afmarkaður ákveðinn tími sem og að nýja ákvörðun þurfi til þess að framlengja beitingu þeirra.

Í samræmi við núgildandi ákvæði laga um nálgunarbann verður nálgunarbanni ekki afmarkaður lengri tími en eitt ár. Að því er varðar brottvísun af heimili er lagt til að heimilt verði að beita henni í allt að fjórar vikur í senn. Hér á landi gildir það almennt í sakamálum að þegar um mjög íþyngjandi úrræði er að ræða verði þeim ekki beitt í lengri tíma en fjórar vikur í senn án þess að meta hvort skilyrði fyrir beitingu þeirra séu enn þá fyrir hendi. Við meðferð máls hjá lögreglustjóra ber að tilnefna þeim sem sæta skal nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili verjanda og þeim sem úrræðinu er ætlað að vernda réttargæslumann. Gildir hið sama við meðferð málsins fyrir dómi. Að sama skapi er það tryggt að bæði sakborningi og brotaþola bjóðist aðstoð túlks ef þeir skilja íslensku ekki nægilega vel. Rétt er að taka fram að í 6. gr. frumvarpsins er að finna sérstaka meðalhófsreglu en samkvæmt henni skal ekki beita nálgunarbanni og/eða brottvísun ef unnt er að ná sama árangri með því að beita öðrum vægari úrræðum.

Loks er í frumvarpinu að finna sérstakan kafla sem fjallar um samskipti lögreglu og sveitarfélaga í málum sem varða nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þannig er lögreglu gert skylt að tilkynna barnaverndarnefnd ef manni er vísað brott af heimili þar sem börn búa eða ef viðkomandi er gert að sæta nálgunarbanni. Einnig er lögreglu gert skylt að tilkynna félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags um brottvísun af heimili og er þar um að ræða nýmæli. Í stuttu máli búa þau rök m.a. að baki ákvæðinu að með þessu móti sé félagsþjónustunni gert viðvart um heimili í vanda og þannig megi hún búast við því að brotaþoli leiti til hennar eftir aðstoð. Þá geti félagsþjónustan jafnframt þurft að útvega þeim sem vísað er brott af heimili sínu húsaskjól í stað þess að viðkomandi verði heimilislaus en sveitarfélögum er nú þegar skylt samkvæmt 46. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að leysa úr bráðum húsnæðisvanda fólks.

Ljóst er að úrræði líkt og brottvísun af heimili er viðurhlutamikið og vandmeðfarið þar sem í slíkum málum vegast annars vegar á hagsmunir þess sem brottvísuninni skal sæta af því að geta dvalið á heimili sínu og hins vegar hagsmunir þess sem brottvísuninni er ætlað að vernda af því að njóta öryggis á eigin heimili. Rökin að baki því að vísa manni brott af eigin heimili snúa að því að vernda líf og heilsu annarra sem þar búa og þykja þau rök vega þyngra en tímabundin röskun á högum þess sem yfirgefa þarf heimili sitt. Verði einstaklingur fyrir ofbeldi á eigin heimili er það ekki einkamál viðkomandi aðila heldur varðar það samfélag okkar allt. Mikilvægt er að yfirvöld taki þá afstöðu að ofbeldi í nánum samböndum verði ekki liðið og aðstoði þá sem verða fyrir slíku eftir fremsta megni.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisákvæðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.