139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[18:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að leggja fram þetta þarfa frumvarp.

Í áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, sem nú er til umfjöllunar í hv. félags- og tryggingamálanefnd, er einmitt kveðið á um í 22. lið að leggja eigi fram frumvarp af þessum toga. Í 23. lið er jafnframt talað um meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar, sem er á ábyrgð velferðarráðuneytis en ekki hæstv. ráðherra þó að ég telji ástæðu til að inna hann eftir því, til þess að bregðast við væntanlegri heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili og jafnvel eigi að kanna hvort rétt sé að heimila að menn verði dæmdir til meðferðar. Það kemur inn á verksvið innanríkisráðuneytisins ef til stendur að dæma menn til meðferðar en ekki er gengið svo langt í þessu frumvarpi.

Mig langaði til að heyra í hæstv. ráðherra hvort honum væri kunnugt um að vinna væri hafin á vegum velferðarráðuneytisins við að veita karlmönnum sem beitt hafa ofbeldi meðferðarúrræði og af hverju hefði ekki verið gengið svo langt í þessu frumvarpi að dæma menn til meðferðar sem hafa verið settir í nálgunarbann eða fjarlægðir af heimili. Eiga þau ákvæði kannski heima í öðrum lögum en því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar?