139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[18:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er enginn áfellisdómur yfir því fyrirtæki sem þessu hefur sinnt. Ef þetta er áfellisdómur yfir einhverju eða einhverjum er það yfir þeirri ráðstöfun árið 2000 að einkavæða þessa starfsemi. Eins og hér kom fram er sá háttur hafður á í flestum viðmiðunarríkjum okkar að þessi höfuðlén landanna eru í opinberri eigu.

Það eru tvær leiðir sem hægt er að fara til að tryggja umhverfi sem er ásættanlegt hvað varðar öryggi og aðra þætti sem ég vék að í framsögu minni og allir eru sammála um að þurfi að vera fyrir hendi. Annars vegar í gegnum eignarhald og þar kom einn kostur til álita, þ.e. að þjóðnýta þessa starfsemi. Menn hugsuðu það út og það var einn valkostur sem kom til álita, að starfsemin væri tekin í almannaeign sem er í rauninni hin eðlilega að mínu mati.

Hinn kosturinn er að setja þessa starfsemi inn í tiltekið regluverk og ég get sagt hv. þingmanni það að ég ræddi þetta við forsvarsmenn fyrirtækisins. Þeim brá ekkert við þessar yfirlýsingar. Þeim þóttu þær fullkomlega eðlilegar vegna þess að fólk sem starfar á þessu sviði hefur fullan skilning á því að höfuðlén þjóðanna þurfa að vera í góðu öryggi. Við fórum hins vegar ekki þá leið en við ætlum að setja þetta inn í öruggt reglugerðarverk. Við viljum reyna að forðast að reglurnar séu til trafala. Hv. þingmaður bendir á að tíminn sem þarna er skammtaður í úthlutun, fimm ár, sé of skammur. Allt er þetta til álita og til umræðu en þetta var niðurstaðan hjá okkur í ráðuneytinu.

Annað sem er líka gagnrýnt af hálfu fyrirtækisins er að hið fasta gjald til Póst- og fjarskiptastofnunar sé hátt. Þetta eru allt saman álitamál líka (Forseti hringir.) en þetta er sú niðurstaða sem menn komust að eftir mjög yfirvegaða yfirferð.