139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[19:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Fyrst langar mig að bregðast við því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan, að hann teldi að það væri hugsanlega dýrara en í öðrum löndum, þjónustugjaldið hjá þessu fyrirtæki. Ég þekki reyndar ekki hvernig sá samanburður er en ég veit hins vegar að verðskrá umrædds fyrirtækis hefur ekki hækkað í 11 ár, hvað sem því líður.

Mig langar að bregðast við einu atriði hér, þ.e. að ég er algerlega ósammála hæstv. innanríkisráðherra um það hvað getur talist eðlilegt rekstrarumhverfi fyrirtækja. Ég er algerlega ósammála því að fimm ár teljist eðlilegt rekstrarumhverfi. Ég er líka mjög hugsi yfir því að fyrirtæki fái úthlutað rekstrarleyfi til fimm ára og hvergi sé neitt ákvæði um áframhaldið. Í raun og veru er fyrirtækið í lausu lofti hvað það varðar hvort það geti starfað eftir fimm ár eða ekki, veit það kannski með örstuttum fyrirvara. Það getur ekki talist eðlilegt rekstrarumhverfi, um það greinir okkur hæstv. ráðherra á.

Það fyrirtæki sem hér um ræðir, ISNIC, hefur sinnt þessu og byggt þetta upp sl. 25 ár, þ.e. internetið á Íslandi, og gert það með miklum sóma, það er hægt að vitna í alþjóðlega mælikvarða því til stuðnings, og því finnst mér þetta mjög sérkennilegt. Það er sérkennilegt að fyrirtæki sem starfað hefur í 25 ár og byggt upp ákveðna auðlind, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti réttilega á, skuli búa við það að hugsanlega verði allt tekið til baka eftir fimm ár. Ég hefði talið mun skynsamlegra og réttlátara að fyrirtækið fengi til að mynda 15 ára leigusamning með endurnýjanlegum samningi, kannski á fimm ára fresti, með því skilyrði að þau lög sem við erum að setja hér — ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra um að það þarf að setja slík lög en ég hefði viljað sjá hann gera það öðruvísi. Ég hefði viljað sjá ákveðið umhverfi, þar sem kveðið yrði á um það hvernig fyrirtækið starfaði, hvert hlutverk þess væri og hverjar skyldurnar og að sjálfsögðu að starfsleyfi þess mundi endurnýjast sjálfkrafa ef það hefur farið eftir fyrirmælum frá löggjafanum. Það er eins og verið sé að fara ákveðna hjáleið í þessu, þó að hæstv. ráðherra beri á móti því, og ég efast ekkert um það, þ.e. að setja lög sem gilda í fimm ár og síðan sé hugsunin jafnvel sú að þjóðnýta fyrirtækið, en hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að það hefði vissulega komið til greina.

Ég bara spyr: Þegar verið er að tala um að skapa eðlilega samkeppni eins og látið er að liggja hér, dettur einhverjum í hug að einhver fari að stofna til þess kostnaðar sem fylgir því að reka slíkt fyrirtæki ef starfsleyfið ætti einungis að vera til fimm ára, og ófyrirséð hvað gerist eftir það? Ég hef ekki nokkra trú á því, bara ekki nokkra trú.

Þar sem ég þekki ekki þennan rekstur mikið langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái það fyrir sér að nýr aðili taki yfir. Er það ekki dálítið flókið ferli? Yrði ekki að gera samkomulag við þá aðila sem sinna þessu starfi í dag? Gæti það bara gerst með þeim hætti að Póst- og fjarskiptastofnun eða innanríkisráðuneytið gæfi út starfsleyfi til nýrra aðila? Gæti það gerst sjálfkrafa án samvinnu og samstarfs við þá aðila sem sinna þessu í dag? Út frá því litla sem ég hef lesið um þetta og kynnt mér er nánast útilokað að gera slíkt nema í samstarfi og sátt við þá sem fyrir eru. Ég ítreka enn og aftur að það er mjög sérkennilegt að menn skulu setja hlutina fram með þeim hætti að því fyrirtæki sem búið er að byggja upp þessa starfsemi í 25 ár og hefur verið til mikils sóma skuli einungis veitt starfsleyfi til fimm ára. Hvers vegna er það ekki eins og er með mörg önnur starfsleyfi, þ.e. ef viðkomandi fyrirtæki fær starfsleyfi og fer eftir því sem þar kemur fram þá endurnýjast starfsleyfið sjálfkrafa? Mér finnst mjög sérkennilegt að ekki skuli skýrt kveðið á um það. Það er mjög sérkennilegt að eftir 25 ára starf þessa fyrirtækis, sem byggt hefur upp þessa auðlind, skuli starfsleyfi vera veitt til fimm ára og jafnvel með það að markmiði að færa það eitthvert annað.

Mig langar líka að velta öðru upp við hæstv. ráðherra. Hann sagði réttilega hér áðan að það væri mikilvægt að menn gengju um landslénið, eins og hann orðaði það, eftir ákveðnum varúðarreglum, og ég er sammála honum um það. Auðvitað hefur .is mikið gildi og vægi fyrir Íslendinga, hvað það varðar að auglýsa landið og kynna það. Mér er ekki kunnugt um annað en að umrætt fyrirtæki hafi staðið sig vel, enda staðfesti hæstv. ráðherra það áðan. Hæstv. ráðherra sagði að mistökin hefðu átt sér stað fyrir um 10 árum þegar menn einkavæddu þetta, það hafi ekki verið skynsamlegt að hans mati, heldur hefði þetta átt að vera í opinberri eigu eins og það var. En þetta er orðinn hlutur. Þá velti ég því upp, og vil kalla eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra við því, hvort ekki sé skynsamlegra að setjast niður með forsvarsmönnum fyrirtækisins og ræða þann flöt, hvort mögulegt væri að gera þetta án þess að fara þessa leið, ég vil frekar hvetja hæstv. ráðherra til að gera það.

Mig langar aðeins að koma inn á það, og hæstv. ráðherra kom líka inn á það í andsvari áðan, að gert er ráð fyrir að greiddur sé sérstakur skattur, lénaskattur, til Póst- og fjarskiptastofnunar sem á að nema um 4,9% af bókfærðri veltu en önnur fjarskiptafyrirtæki greiða um 0,3%, ef ég man rétt, af sinni veltu. Hver er grunnurinn að þessum skatti? Hvernig er það fundið út að það þurfi að standa undir þessum greiðslum til Póst- og fjarskiptastofnunar? Manni finnst stundum eins og verið sé að búa til eftirlitskerfi sem tekur sjálfkrafa til sín tekjur af þeim sem reka fyrirtækin, þetta er nánast orðin sjálftaka á mörgum sviðum. Mig langar að fá rök hæstv. ráðherra fyrir því hvers vegna þetta sé 4,9% af veltu þessa fyrirtækis þegar það er einungis 0,3% hjá fjarskiptafyrirtækjum. Hvaða réttlæti er það?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að með þessu sé verið að ganga á atvinnurétt fyrirtækisins, hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að fyrirtæki sem búið er að starfa hér í 25 ár fái starfsleyfi og fyrst nú sé verið að setja lög um starfsemina, slík lög hafa ekki gilt áður. Hefur hann engar áhyggjur af því að komið gæti til skaðabótaskylda hjá ríkinu ef menn setja í lög í dag að starfsleyfið eigi einungis að gilda til fimm ára? Og þetta segi ég í ljósi þess að þetta er ekki gert með afgerandi hætti, af því að við deilum ekki um að setja þarf lög um þessa starfsemi. En mér finnst vanta inn í að það séu ákveðnar skyldur sem fylgi því að fá starfsleyfi og uppfylli fyrirtækið þær skyldur þá endurnýist starfsleyfið sjálfkrafa. En það er ekkert um það hér. Það er undir hælinn lagt hvort fyrirtækið fær áfram starfsleyfi eða ekki. Hvernig í ósköpunum á atvinnurekstur að geta starfað í slíku umhverfi? Það er bara ekki hægt, algerlega ótækt að mínu viti.

Ég velti því líka upp hvort hæstv. ráðherra telji ekki hugsanlegt, af því að ég er að ræða um starfsleyfistíma sem er fimm ár, að verði þessi lög samþykkt á Alþingi með fimm ára starfsleyfi sé verið að tryggja þessu fyrirtæki einokun til framtíðar. Ég sé ekki fyrir mér hvernig nokkur einasti aðili ætti að geta lagt í mikinn uppbyggingarkostnað til að fara að reka fyrirtæki sem fær einungis starfsleyfi til fimm ára og óvíst hvort það yrði þá framlengt. Mér er það hulin ráðgáta hvernig það á að geta gengið upp.

Síðast en ekki síst vil ég ítreka það sem ég hef sagt að mér finnst mjög sérkennilegt að fyrirtæki sem búið er að starfa í 25 ár skuli fá sett á sig lög með starfsleyfi til fimm ára. Það er mjög óréttlátt, finnst mér, að ég tali ekki um að ekki sé endurnýjunarákvæði í starfsleyfinu. Ég velti því fyrir mér hvernig á því standi að þetta fyrirtæki þurfi að greiða 16 sinnum hærra gjald til Póst- og fjarskiptastofnunar en önnur fjarskiptafyrirtæki. Hver er ástæðan fyrir því? Það hlýtur að verða skoðað sérstaklega af ráðuneytinu. Af hverju má þetta fyrirtæki ekki bara greiða sama gjald og önnur fjarskiptafyrirtæki greiða í dag? Póst- og fjarskiptastofnun gæti þá með því að gefa út reikninga sýnt fram á að eftirlitið og umsýslan væri meiri en svo að gjaldið dygði fyrir því, það er einmitt það sem sett er inn í ákvæði um það verðlagseftirlit sem er á mörgum stöðum, þar sem fyrirtækin þurfa að sýna fram á kostnað. Mér finnst eðlilegt að því sé snúið við og Póst- og fjarskiptastofnun geti ekki tekið sjálfkrafa jafnháa upphæð og hér er um að ræða, sem er 5% af bókfærðri veltu — þetta er mjög há tala — nema sýna fram á raunverulegan kostnað sem fylgir því að standa undir eftirlitinu.

Mér finnst líka mjög sérkennilegt að lesa í skýringum með frumvarpinu — það vekur mig til umhugsunar — í IV. kafla, sem heitir Tilefni og nauðsyn lagasetningar, mér finnst ótrúlegt að lesa þann kafla og geri athugasemdir við hann. Árið 2005 bárust samgönguráðuneytinu óformlegar kvartanir opinberra aðila og einstaklinga vegna þátta í starfsemi ISNIC. Mér finnst mjög sérkennilegt að í texta í lagafrumvarpi sé verið að vísa til einhverra óformlegra kvartana. Er ekki meiri fótur fyrir því en svo að menn þurfi að vera með hálfgerðar dylgjur í lagatexta, ef ég má orða það svo, og vísa í óformlegar kvartanir? Við skulum ekki gleyma því að þetta mun standa áfram í textanum. Hvers vegna er verið að setja svona setningar inn og vísa í eitthvað sem er óformlegt? (Innanrrh.: Þær voru óformlegar.) Þær voru óformlegar, já.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra af því að hann grípur fram í: Finnst honum það þurfa að koma fram í lagaskýringum með málinu? Finnst honum að vísa þurfi til óformlegra kvartana í lagafrumvarpi? Ég er hræddur um að þá væri textinn ansi skrautlegur í mörgum frumvörpum. Mér finnst þessi texti algerlega óásættanlegur. Ég mun í hv. samgöngunefnd, þangað sem þetta mál fer til umfjöllunar, reyna að berjast fyrir því að þetta verði tekið út. Mér finnst ekki gott að vísað skuli í óformlegar kvartanir, menn geta gert það annars staðar en að setja það í lagatexta.

Ég vona að hæstv. ráðherra bregðist við þeim spurningum sem ég lagði fram, ég náði því ekki að koma þeim öllum fram í andsvari áðan. Ég vænti þess að hann muni hér eftir sem hingað til svara skilmerkilega þeim athugasemdum sem ég geri.