139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[19:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst um hið formlega og óformlega, hvers vegna vísað er til óformlegra kvartana. Það er vegna þess að þessar kvartanir voru óformlegar en bárust ráðuneytinu. Hitt hefði kannski verið til nánari skýringar að vísa í fyrirspurnir sem settar voru fram á Alþingi. Þær voru ekki óformlegar, þær voru formlegar.

Mér finnst virðingarvert að horfa á þessi mál út frá hagsmunum fyrirtækisins sem í hlut á, en það er líka ástæða til að horfa á þetta með hliðsjón af hagsmunum skattborgara og notenda lénsins. Ég vísaði í það að ég er einn af þeim. En það er rangt sem hv. þingmaður staðhæfir að ekki hafi verið um neinar hækkanir að ræða á umliðnum árum. Ég þekki það bara mjög vel sjálfur þannig að það er ekki rétt.

Það er annað líka sem ég vil leggja áherslu á. Það er sögukunnátta hv. ræðumanns um þessi mál þegar hann vísar í uppbyggingarstarf á aldarfjórðungi, á 25 árum, þegar veruleikinn var sá að þar komu aðrir aðilar að málum. Það var háskólinn, það var Orkustofnun, það var m.a. Alþingi sem enn er að vísu mjög lítill eigandi að léninu en er það engu að síður. Síðan var farið út á þá braut að einkavæða þetta fyrirtæki, illu heilli tel ég, ég held að það hafi verið mjög misráðið. Ég segi það sem notandi, sem viðskiptavinur og líka sem skattgreiðandi. Þá er spurningin: Hvað skal gera? Ég vil taka það fram að þeir aðilar sem komu að þessu, sumir hverjir eru enn viðloðandi fyrirtækið sem tóku þátt í uppbyggingunni fyrir 25 árum úr háskólanum. Ég hef átt viðræðufundi með slíkum aðilum og átt mjög góðar viðræður við þá alveg óháð hagsmunatengdu tali um eignarhald. Það er bara allt annar hlutur.

Þær tölur sem eru settar hér til grundvallar og þær hlutfallstölur byggja á hlutlægu mati. Það er vísað í veltutengd rekstrargjöld sem eru náttúrlega önnur ef um gríðarmikla veltu er að ræða eins og í fjarskiptafyrirtækjum. Það er allt annar veruleiki sem er þar á bak við. Það sem síðan er gert er að horfa til eftirlitsþáttanna og kostnaðargreina þá. Það hefur enginn áhuga á því og við höfum ekki áhuga á því í ráðuneytinu að íþyngja þessu fyrirtæki um of. Hvers vegna í ósköpunum vildum við gera það? Við viljum að fyrirtækið geti selt þjónustu sína á eins lágu verði og á eins hagkvæman hátt til mín og þín og nokkur kostur er. Þetta eitt vakir fyrir okkur.

Síðan spyr hv. þingmaður: Erum við að tryggja einokun til framtíðar? Og vísar þá í, sem mér finnst svo sem ágæt röksemd, að úthlutunartíminn eða leyfistíminn sé einvörðungu fimm ár, og hann heldur því fram að stofnkostnaður sé svo mikill að enginn geti í reynd tekið þessa starfsemi yfir ef hann fær ekki lengra ráðrúm. Ég held að þetta sé ekki rétt en þetta er þáttur sem alveg þess virði að skoða. En er það þá til að draga úr einokunarhættu að fjölga þessum fimm ára tímabilum þrettánfalt, eins og hv. þingmaður, samflokksmaður þingmannsins, lagði til hér áðan, Pétur Blöndal, að við hefðum leyfistímann 65 ár? Er það til að draga úr hættunni á einokun?

Hann segir að það gæti verið erfiðleikum bundið að færa leyfið frá einum aðila til annars. Jú, jú, það kann vel að vera. Ástæðan fyrir því að um það var rætt að hafa þessa starfsemi í almannaeign er sú að tryggja betur hagsmuni okkar sem viðskiptavina og síðan sem skattborgara. Það eru tvær leiðir til þess. Það er samkeppnin, en eins og hér hefur verið bent á og allir sem hafa tekið til máls í þessu máli leggja áherslu á er þetta ekki samkeppnisrekstur, þetta er einkaleyfisrekstur. Hvað gerum við þá? Annaðhvort höfum við þetta einkaleyfi á höndum opinberra aðila eða við búum til hlutlægt regluverk til að verja okkur sem notendur — það er það sem við erum að gera — óháð eignarhaldi hvort sem það er einkafyrirtæki á markaði eða þess vegna ríkið. Út á það gengur þessi vinna og við ákváðum að fara þá leið.

Ég mótmæli því að við förum að tala okkur í hagsmunagæslu fyrir þetta fyrirtæki ofan í vasann á skattborgurum og tala hér upp einhverja skaðabótaskyldu ef ríkið og við, fulltrúi okkar notenda, ætlar að reyna að verja hagsmuni okkar. Hvers konar tal er þetta eiginlega? Ég auglýsi bara eftir því að hv. þingmaður skýri mál sitt betur ef hann er kominn hingað í þingsal til að reyna að tala sig, fyrir hönd fyrirtækis úti í bæ, ofan í vasann á skattborgaranum og tala hér upp einhverja skaðabótaskyldu. Þetta er algerlega út í hött. Þetta fyrirtæki var í almannaeign þar til fyrir örfáum árum. Þar eru starfandi prýðismenn og allir bera þeim vel söguna. Það komu fram kvartanir á sínum tíma, óformlegar, það voru fyrirspurnir í þinginu. Það voru menn, eins og ég, sem höfðu miklar efasemdir um einkavæðinguna og gagnrýndu hana, en það sem við erum að gera núna er að reyna að búa til umhverfi þar sem þessu fyrirtæki vegnar vel vegna þess að ef þessu fyrirtæki vegnar vel vegnar okkur einnig vel sem erum viðskiptavinir við þetta fyrirtæki, og hér stendur einn sem það á við um.