139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[19:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að hann skuli draga í land fullyrðingar sem þar komu fram og ég þarf ekki að ræða þær neitt frekar. Hæstv. ráðherra segir líka að það sé mikilvægt — hann mótmælti því reyndar áðan að fyrirtækið hefði ekki hækkað gjaldskrána í mörg ár. Það kemur þá bara í ljós í meðförum nefndarinnar hvort það er rétt og þarf ekki að gera neinn ágreining um það, enda komum við hvorugur að gjaldskrárhækkun fyrirtækisins.

Hæstv. ráðherra sagði líka áðan að opinberir aðilar sem hefðu byggt upp fyrirtækið hefðu líka tekið þátt í að byggja upp þá viðskiptavild og þann grunn sem fyrirtækið byggir á. Um það erum við algerlega sammála. En það hlýtur að hafa verið greitt fyrir slíkt af viðkomandi eigendum á sínum tíma þegar það var selt og hvers virði fyrirtækið var.

Hæstv. ráðherra kom inn á það í andsvari áðan og ég er algerlega sammála því að það er að sjálfsögðu mikilvægt að tryggja hagsmuni notenda fyrirtækisins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra þar sem nú á að leggja 5% skatt á fyrirtækið og reynslan af því er því miður sú að megnið af því fer beint ofan á seðilgjöldin, þegar fyrirtæki fá aukaskattlagningu eins og í þessu tilfelli fer hún væntanlega bara ofan á seðilgjaldið og notandinn þarf að greiða það — hvort hæstv. ráðherra fyndist ekki eðlilegra að gera það með þeim hætti að Póst- og fjarskiptastofnun þurfi að færa sönnur á raunkostnað sem þeirri stofnun er ætlað að bera með því að framfylgja þessum lögum einmitt til að tryggja réttindi eða hagsmuni notenda. Ég teldi miklu skynsamlegra að Póst- og fjarskiptastofnun þyrfti að sýna sannanlega fram á það þannig að ekki væri verið að velta skattinum yfir á notandann ef sá kostnaður er ekki fyrir hendi.