139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[19:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú hugsun sem hv. þingmaður orðar hér hugnast mér að mörgu leyti, þ.e. að það sem rukkað er fyrir sé sýnilegt og sannanlegt. Hv. þingmaður nefnir að það sé eðlilegt að gera þetta samkvæmt reikningum væntanlega en hugmyndin á bak við þessa gjaldtöku er slíkt hlutlægt mat. Ég legg til að nefndin sem fær málið til umfjöllunar skoði það rækilega.

Staðreyndin er sú að þegar frumvarpið var upphaflega lagt fram eða drög að því kynnt var þetta gjald hærra, það var talsvert hærra. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að færa það verulega niður, umtalsvert. Hvers vegna? Til að tryggja sem best hagsmuni notenda þannig að þeir yrðu rukkaðir sem minnst. En staðreyndin er sú að fyrirtæki á einkamarkaði sem hafa einokunaraðstöðu eru í svolítið sérstakri stöðu og við þekkjum það náttúrlega í reynslu undangenginna ára að íslensk fyrirtæki skuldsettu sig og veðsettu sig úr hófi fram. Ég hygg að það hafi átt við um þetta fyrirtæki líka. Hvað þýðir það? Það þýðir að ég sem notandi er gerður ábyrgur fyrir slíkum hlutum. Á markaði ræður markaðurinn úrslitum um hvað síðan gerist. Fyrirtæki sem fara óvarlega fara á hausinn, önnur koma til sögunnar. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki þar sem um er að ræða einokun. Við ákváðum að fara þá leið til að tryggja hagsmuni notenda að búa til hlutlægt regluverk, setja (Forseti hringir.) þak á hvað hægt er að rukka af okkur, setja þak á hvað hægt er að rukka fyrirtæki, (Forseti hringir.) vonandi öllum til góðs, og ég óska þessu fyrirtæki alls velfarnaðar.