139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst er spurt hvort komið hafi til tals að setja bann við erlendum lánum. Það kom til tals og var rætt í undirbúningi frumvarpsins. Niðurstaðan varð sú að lögbinda ekki slíkt bann heldur setja ákvæði eða vísa til reglugerðarheimildar sem mundi síðan taka mið af skuldastöðu sveitarfélaganna til að binda slíka heimildir styrk sveitarfélaganna.

Hv. þingmaður spyr hvað hafi komið helst til álita eftir þing Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri sl. haust. Jú, sú gagnrýni sem þar kom einkum fram laut að refsiákvæðum frumvarpsins. Mönnum þótti frumvarpssmiðir heldur refsiglaðir gagnvart sveitarfélögum sem skuldsettu sig um of eða færu út fyrir þann ramma sem lögin kváðu á um þannig að úr því var dregið. Tekið var tillit til þeirrar gagnrýni.

Spurt er hve mörg sveitarfélög séu með skuldsetningu yfir 150% af reglulegum rekstrartekjum. Svarið mun vera þegar litið er til A-hluta 20 talsins en þegar litið er til A+B-hluta eru þau 30 talsins.