139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekki bara spurning um tekjur eða gjöld heldur líka vinnu, einkum fyrirtækja. Ég hugsa að mörg fyrirtæki séu með starfsmann, jafnvel tvo eða þrjá, til að sinna kröfum skattlagningarvaldsins, sérstaklega varðandi tolla, vörugjöld og umhverfisskatta. Ég hef heyrt af einni manneskju sem vann í heilan dag við að finna plast í umbúðum í einhverjum gámi, það tók hana heilan dag og ég held að það hafi verið um 600 kr. eða 631 kr. sem var borgað í umhverfisgjöld út af því. Það er gífurleg vinna. Mér þætti mjög eðlilegt að metið yrði hvað vinnan og flækjustigið í skattkerfinu kostar fyrirtæki í landinu. Ég hugsa að það sé minna gagnvart fjölskyldunum en það mætti líka kanna það. Því finnst mér sjálfsagt að það fylgi hverju frumvarpi hvað búið sé að lesta fyrirtækin mikið með vinnu og flækjustigi og svo mætti gjarnan skoða hvort ekki sé fyrir löngu búið að keyra yfir getu heimilanna til að borga skatta.