139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[21:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsöguræðuna og vil við upphaf þessarar málsmeðferðar lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu skynsamlegar. Auðvitað verður farið yfir þetta á vettvangi allsherjarnefndar eins og gengur og rök og reynsla í þessu sambandi skoðuð en fyrstu viðbrögð mín eru þau að þær tillögur sem um er að ræða — frumvarpið er tvíþætt eins og hæstv. ráðherra gat um — báðar þær efnisbreytingar sem þar er að finna, séu til bóta.

Ég vildi hins vegar nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um áform í sambandi við uppbyggingu fangarýma sem töluvert hefur verið til umræðu í samfélaginu á síðustu mánuðum. Ýmsar áætlanir hafa verið nefndar og flestir sem að þessum málum hafa komið eru sammála um að þörf sé á að fjölga fangarýmum en skoðanir hafa verið skipar um hvar eðlilegt væri að sú uppbygging ætti sér stað auk þess sem fjárskortur ríkissjóðs hefur tafið fyrir framgangi áætlana að þessu leyti. En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar nýlega í sambandi við uppbyggingu fangarýma og einfaldlega hvaða stefnu þau mál séu að taka í hans ráðuneyti.