139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[22:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að persónulegir hagir fjármálaráðherra varði ekki það mál sem hér er um að ræða og varla viðeigandi að vera að blanda því mikið inn í umræðuna. Það er alveg ljóst að með þessu frumvarpi er lögð aukin áhersla á að það sé samræmi í framgöngu stjórnvalda að þessu leyti hvað varðar yfirlýst lýðheilsumarkmið, hvað varðar áfengis- og vímuvarnastefnu stjórnvalda, hvað varðar samfélagslega ábyrgð þessa mikilvæga fyrirtækis sem fer með einkaleyfi og annast um dreifingu þessarar vöru og sölu í smásölu samkvæmt því fyrirkomulagi sem við Íslendingar höfum valið okkur og viðhaft um áratugaskeið, fyrirkomulagi sem að breyttu breytanda hefur verið nokkuð góð sátt um þó að vissulega hafi það ekki alltaf verið óumdeilt.

Þetta er fyrirkomulag sem við höfum ásamt með öðrum Norðurlandaþjóðum, a.m.k. þremur þeirra, staðið saman um að verja á alþjóðavettvangi. Þannig hafa Norðurlöndin fjögur, Ísland, Noregur, Svíþjóð og Finnland, staðið mjög þétt saman um að verja þetta fyrirkomulag í samskiptum sínum við aðrar Evrópuþjóðir með samningum, hvort sem það eru samningar og aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða Evrópusambandinu. Þannig að þetta er í ágætu samræmi við það sem hefur verið meginstefnan að þessu leyti af hálfu stjórnvalda gegnum tíðina á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum.