139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[22:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hvert málið á fætur öðru og nú er klukkan hálfellefu um kvöld. Það er ekki beint gæfulegt til að við búum til almennilega lagasetningu og þátttakan í umræðunni er náttúrlega mjög lítil.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í tilefni þessa frumvarps. Hér stendur neðst á síðu 1, með leyfi forseta:

„Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.“

Hvað þýðir þetta? Hver ætlar að meta hvort menn búi yfir nægilegri þekkingu o.s.frv.?

Síðan segir að menn megi ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annan lífeyrissjóð og þá er spurningin: Hvernig er með tryggingafræðinga sem allir lífeyrissjóðir þurfa að hafa? Geta þeir unnið í stjórn eins sjóðs og verið tryggingafræðingar annars?

Svo er fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna í framkvæmdastjórn mjög mikilvægt. Mig langaði því að bæta við einni spurningu: Kom til álita að sjóðfélagar kysu stjórnina beinni kosningu? Það hefur verið mjög mikið rætt og ég hef nokkrum sinnum í gegnum tíðina flutt breytingartillögu um að sjóðfélagar sem eru þeir einu sem eiga kröfu á þau réttindi sem sjóðurinn veitir — atvinnurekendur eiga enga kröfu eftir að maður hættir störfum hvort sem það er vegna elli, örorku eða dauða — er þá ekki eðlilegt að sjóðfélaginn kjósi stjórn beinni kosningu eins og vaxandi krafa er um núna eftir hrun?