139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[22:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns skal ég alveg játa að það er ekki einfalt að skilgreina hvað eigi að teljast í þessu tilviki nægjanleg þekking og starfsreynsla. Hér er um að ræða, að ég best veit, mjög sambærileg ákvæði og þegar hafa verið lögleidd varðandi aðra eftirlitsskylda aðila, þ.e. fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög. Sú löggjöf var mótuð og m.a. unnin í nefndum þingsins þannig að við höfum að sjálfsögðu fyrst og fremst tekið mið af því og þeim útfærslum sem þar voru valdar. Eitthvað er þetta útskýrt í 1. gr. en auðvitað er það matskennt og skal engin dul dregin á að það getur kannski verið erfitt að afmarka þetta nákvæmlega. Það er verið að reyna að mæta sömu sjónarmiðum og markmiðum í lögum um hæfi stjórnarmanna í lífeyrissjóðum og þegar er búið að gera með breytingum á löggjöf um fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög.

Varðandi tryggingafræðinga og aðra slíka, hvort þeir megi starfa fyrir aðra aðila og sitja í stjórn, verð ég að játa að ég treysti mér ekki til að svara því fortakslaust en þó hef ég ekki rekist á að það sé takmarkað við annað en lögmannsstörf eða lögfræðistörf fyrir aðra aðila í þessum tilvikum.

Varðandi kosningu beint í stjórnir lífeyrissjóða er með þessu frumvarpi ekki verið að gera grundvallarbreytingar á því fyrirkomulagi að öðru leyti en því, eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni, að ein af undanþágunum sem settar eru þar inn er sérstaklega sett inn til að mæta möguleikum starfsmanna, eftirlitsskyldra aðila, til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs þó svo sé ef þeir (Forseti hringir.) eru til þess kosnir af sjóðfélögum sínum eða til þess skipaðir.