139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[22:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sem betur fer eru eignir lífeyrissjóðanna miklar. Þær eru okkar verðmætasti sjóður svo miklu munar. Hreinar eignir til greiðslu lífeyris nálgast 2 þús. milljarða kr. og það skiptir okkur öll miklu máli hvernig til tekst með vörslu þess fjár og ávöxtun og að það gangi allt sem best fyrir sig.

Varðandi aðild sjóðfélaga að stjórnum og afstöðu mína til þess máls get ég upplýst og glatt hv. þingmann — við höfum oft rætt þessi mál hér áður og ég hef hlustað eftir því sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur oft sagt — með því að á síðasta ársfundi Sambands lífeyrissjóða þar sem ég var gestur og ræðumaður og málefni lífeyrissjóðanna voru rædd í almennu samhengi og ábyrgð þeirra á því sem gerðist í íslensku viðskiptalífi var mjög til umræðu, þar á meðal fóru fulltrúar úr rannsóknarnefnd Alþingis yfir þau mál á fundinum, þá velti ég upp þeirri hugmynd hvort lífeyrissjóðirnir ættu ekki í innri skoðun sinni, sem þeir ganga núna í gegnum, að taka a.m.k. upp eitthvert blandað stjórnunarfyrirkomulag þar sem sjóðfélagar eftir atvikum gætu komið beint að stjórnunum eða hluta þeirra.

Við þekkjum á hverju þetta hefur byggt. Það er af sögulegum ástæðum vegna þess að lífeyrissjóðakerfið er sprottið upp úr samstarfi og kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Það hefur dálítið markað hvernig kerfið hefur þróast að þar hafa menn skipað í stjórnir frá báðum hliðum, vinnuveitenda og launamanna. En ég er síður en svo andvígur því að það sé skoðað og best væri að lífeyrissjóðirnir mundu sjálfir opna þetta eitthvað, t.d. með því að einhver hluti stjórnarmanna væri kosinn beinni (Forseti hringir.) kosningu á aðalfundum sjóðanna.