139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða, sem er 77. mál á þskj. 1255.

Í upphafi eru á hefðbundinn hátt taldir upp allir þeir aðilar sem komu til nefndarinnar sem ég tel ekki ástæðu til að lesa upp, þeir voru fjölmargir og fjölmargar umsagnir bárust nefndinni.

Þess ber að geta að frumvarpið var upphaflega lagt fyrir á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Í umsögnum, sem og í máli gesta á fundum nefndarinnar, komu fram ýmis sjónarmið sem nefndin tók til skoðunar og íhugaði við meðferð málsins. Að auki bárust 34 umsagnir vegna málsins á síðasta löggjafarþingi sem nefndin kynnti sér. Nefndin átti einnig tvo sameiginlega vinnufundi með umhverfisnefnd Alþingis.

Með frumvarpinu er stefnt að því að setja í fyrsta sinn eina, heildstæða löggjöf um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skýra þá stöðu sem hún á að hafa gagnvart stjórnvöldum við gerð skipulagsáætlana og veitingu opinberra leyfa, þar með talið rannsóknar-, nýtingar- og virkjunarleyfa. Frumvarpinu er einnig ætlað að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við mat og flokkun á virkjunarkostum. Lagt er til að iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, vinni að langtímaverndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhita og iðnaðarráðherra leggi hana fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í áætluninni skal mótuð stefna um verndar- og nýtingargildi landsvæða og virkjunarkostir skilgreindir í þrjá flokka; nýtingarflokk, verndarflokk og biðflokk. Með þessu er ætlunin að stuðla að vandaðri og markvissri stefnumörkun og sátt um hvaða svæði sé hugsanlega hægt að nýta til orkuvinnslu og hvaða svæði eigi að vernda gagnvart slíkum framkvæmdum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Gildissvið frumvarpsins er afmarkað í 2. gr. þannig að lögin nái til háhitasvæða og landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti fallvatna, og verndar- og nýtingaráætlunin á samkvæmt frumvarpinu aðeins að ná til þeirra orkulinda. Í umsögn umsagnaraðila kom fram sú ábending að gildissvið frumvarpsins væri of þröngt afmarkað. Nefndin féllst á þetta sjónarmið. Forsögu rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma má rekja til ársins 1993 og voru óhefðbundnir virkjunarkostir eins og sjávarfallavirkjanir eða vindorka lítt komnir til skoðunar á þeim tíma. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þeim tíma og telur nefndin að horfa verði til framtíðar þegar sett er heildstæð löggjöf á þessu sviði. Nefndin leggur því til breytt heiti frumvarpsins og víðtækara gildissvið því að ella er frumvarpið afmarkað við virkjunarkosti í fallvötnum eða á háhitasvæðum. Lögin munu af þessum sökum ná til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, jafnt innan eignarlanda og þjóðlendna. Einn flokkur áætlunarinnar verður þá orkunýtingarflokkur í stað nýtingarflokks. Nefndin vill árétta að sú rammaáætlun sem nú er á lokastigi verður afmörkuð við virkjunarkosti í fallvatni eða háhita.

Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að hugtakið sjálfbær þróun væri ekki skilgreint. Þeir töldu nauðsynlegt að skilgreina það nánar, þá sér í lagi til að tryggja samræmda beitingu hugtaksins í núverandi löggjöf. Nefndin vill benda á að hugtakið sjálfbær þróun er skilgreint í skipulagslögum, nr. 123/2010, en þar segir um hugtakið:

„Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar.“

Hugtakið sjálfbær þróun er einnig skilgreint í lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, en þar segir um hugtakið:

„Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar, sbr. 1. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992.“

Af þessum skilgreiningum má sjá að þær eru á allan hátt sambærilegar og tryggja samræmda löggjöf. Í greinargerð með þessu frumvarpi er að finna umfjöllun um sjálfbæra þróun og er það mat nefndarinnar að óþarft sé að skilgreina hana sérstaklega.

Fram komu athugasemdir um að verið væri að færa forræði friðlýsingar frá umhverfisráðuneyti og stofnunum þess yfir til iðnaðarráðuneytis. Nefndin ítrekar að svo er ekki. Það er Alþingi sem tekur afstöðu til verndar- og orkunýtingaráætlunar og samþykkir hana. Að því loknu hefja stjórnvöld, þ.e. umhverfisráðuneytið, undirbúning að friðlýsingu landsvæða í samræmi við náttúruverndarlög. Á engan hátt er hróflað við hlutverki opinberra stofnana á sviði rannsókna og stjórnsýslu.

Í frumvarpinu er lagt til að þingsályktunin um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða eigi að vera til 12 ára í senn. Að mati nefndarinnar er þetta óþarft þar sem verndar- og orkuáætlunin er stöðugt í endurskoðun og því ekki endanleg áætlun, en hún kemur til endurskoðunar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti, samanber 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

Sú ábending kom frá Skipulagsstofnun að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, úrskurðar stofnunin ekki heldur tekur stjórnvaldsákvörðun. Tekur nefndin undir þessa ábendingu og leggur til breytingu á 2. málslið 3. mgr. 3. gr. þessu að lútandi.

Nefndin leggur einnig til þá breytingu að verndar- og orkunýtingaráætlun skuli taka mið af vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, samanber ákvæði frumvarpsins um samræmingu áætlana. Sambærilegt ákvæði er í þeim lögum.

Frá umsagnaraðilum kom gagnrýni á þann hluta 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins sem kveður á um að verndar- og orkunýtingaráætlun taki ekki til landsvæða sem njóta friðlýsingar í samræmi við 50. gr. laga um náttúruvernd nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði. Það er mat umsagnaraðila að eðlilegra hefði verið að fela verkefnisstjórn að taka afstöðu til verndarhagsmuna einstakra svæða fremur en að binda hendur hennar með þessum hætti. Einnig töldu þeir hættu á því að ekki verði gengið varanlega frá friðlýsingu gagnvart virkjunarframkvæmdum á þeim svæðum sem ákvæðið tekur til. Nefndin áréttar að hún telur ekki ástæðu til að bregðast við athugasemdum umsagnaraðila. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja að þau landsvæði sem þegar er búið að friðlýsa samkvæmt 50. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, lendi ekki í nýtingarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði og standa þannig vörð um friðlýsingar. Í slíkum tilfellum er verkefnisstjórn heimilt að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði innan friðlýstra svæða til samanburðar við aðra kosti.

Hjá umsagnaraðilum kom fram sú athugasemd að mikilvægt væri að gera ítarlega kostnaðar- og ábatagreiningu þegar kemur að því að veita leyfi tengd orkurannsóknum og orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í orkunýtingarflokki. Nefndin vill í þessu sambandi benda á að á vettvangi fjögurra faghópa verkefnisstjórnar er gerð kostnaðar- og ábatagreining, metin samlegðaráhrif virkjunarkosta sem og þjóðfélagslegur ábati að teknu tilliti til umhverfiskostnaðar, samanber verksvið faghópanna fjögurra.

Þeir eru:

I. Náttúrufar og menningarminjar.

II. Útivist, ferðaþjónusta og hlunnindi.

III. Efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana.

IV. Virkjunarkostir og hagkvæmni þeirra.

Horft er til allra þessara þátta við ákvörðunartöku.

Fram kemur í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins að stjórnvöldum sé heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum og orkuvinnslu vegna virkjunarkosta í orkunýtingarflokki. Til að taka af allan vafa vill nefndin árétta að það fer eftir viðkomandi sérlögum hvaða stjórnvöld veita leyfi tengd rannsóknum og vinnslu, þ.e. lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, vatnalögum, nr. 15/1923, raforkulögum, nr. 65/2003, o.s.frv.

Fram kemur í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins að í biðflokk falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins hvort þeir eigi að falla í nýtingarflokk eða verndarflokk. Í þessu sambandi vill nefndin árétta að við þetta mat skulu ráðherra og Alþingi einnig líta til almannahagsmuna þyki rétt að virkjunarsvæði bíði um sinn frekari ákvörðunar.

Í 3. mgr. 5. gr. er kveðið á um að heimilt sé að veita leyfi tengt orkurannsóknum og stunda orkurannsóknir sem eru ekki leyfisskyldar vegna virkjunarkosta í biðflokki. Fram komu ábendingar hjá umsagnaraðilum um að rannsóknir á afkastagetu jarðhitasvæða sé erfitt að framkvæma án þess að þeim fylgi varanlegt rask sem rýri verndargildi svæðanna. Það er álit nefndarinnar að með ákvæðinu sé farinn millivegur milli þeirra sjónarmiða að unnt sé að afla upplýsinga sem þörf er á til að ákveða hvort viðkomandi virkjunarkostur eigi að vera í verndarflokki eða orkunýtingarflokki án þess þó að við að afla þeirra upplýsinga verði verulegt rask á umhverfi viðkomandi landsvæða.

Þetta er í samræmi við grundvallarsjónarmið frumvarpsins um að ákvörðun um hvort nýta megi svæði til orkuvinnslu byggist á heildstæðu og faglegu mati. Einnig þykir nefndinni rétt að undirstrika að hafa verður í huga að hér er um áætlun að ræða og eftir að virkjunarkostur hefur verið flokkaður í nýtingarflokk fer fram mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Ekki er miðað við að afla þurfi svo nákvæmra upplýsinga um hvern og einn virkjunarkost og áhrif hans að jafna megi við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Virðulegi forseti. Nefndin bendir á að á engan hátt er hróflað við hlutverki opinberra stofnanna á sviði rannsókna og stjórnsýslu. Umhverfisstofnun heimilar yfirborðsrannsóknir á grundvelli þeirra laga og reglna sem um slíkt ferli gilda. Nefndin vill einnig benda á að yfirborðsrannsóknir samkvæmt 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins byggjast á kortlagningu, mælingu og sýnatöku sem fer fram án röskunar á landslagi og náttúru, samanber 6. tölulið 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins, og fela ekki í sér varanlega mannvirkjagerð eða röskun á landslagi, náttúru eða menningarsögulegum minjum. Þessu tengt vill nefndin árétta að yfirborðsrannsóknir eru ekki eingöngu í þágu orkurannsókna en þykir ekki rétt, í ljósi þeirra grunnupplýsinga sem liggja verða fyrir um allar orkuauðlindir landsins, að útiloka að slíkar grunnrannsóknir séu stundaðar af orkufyrirtækjum eða öðrum aðilum. Það er hlutverk Umhverfisstofnunar að meta hvort þær skuli leyfðar.

Frá umsagnaraðilum komu fram athugasemdir varðandi 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins um að stjórnvöld skuli við samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlunar hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða. Að mati þeirra ætti að vera nægjanlegt að gefa út að viðkomandi svæði falli í umræddan verndarflokk hvað hugsanlega orkunýtingu varðar. Það er skilningur nefndarinnar að þetta ákvæði gefi stjórnvöldum svigrúm til að ljúka friðunarferli þannig að friðlýsingu sé lokið áður en endurskoðuð verndar- og orkunýtingaráætlun er lögð fram á Alþingi þar sem ákveðin hætta sé á að orkurannsóknir trufli það ferli óháð því hvort þær hafi í för með sér veruleg umhverfisáhrif eða ekki.

Sú gagnrýni kom fram hjá nokkrum umsagnaraðilum að með ákvæði 7. gr. frumvarpsins væri vegið að skipulagsvaldi sveitarfélaga. Nefndin fór ítarlega yfir þessi mál og tekur undir að sú stefnumörkun sem felst í verndar- og orkunýtingaráætluninni takmarki heimildir sveitarfélaga í skipulagsmálum. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir samræmi skipulagsáætlanir sínar verndar- og orkunýtingaráætluninni, þ.e. ekki er gert ráð fyrir því að virkjanir séu settar inn á skipulagsáætlanir nema það samræmist þeirri flokkun. Nefndin bendir á að það er skilningur hennar að verndar- og orkunýtingaráætlun yrði marklaus ef hún væri ekki endurspegluð í skipulagsáætlunum sveitarfélaga og útskýrir það nauðsyn og tilgang 7. gr. frumvarpsins. Einnig áréttar nefndin í þessu sambandi að Samband íslenskra sveitarfélaga á fulltrúa í sex manna verkefnisstjórn samkvæmt 8. gr. frumvarpsins.

Nokkur gagnrýni kom fram á skipan og starfssvið verkefnisstjórnar samkvæmt 8. gr. frumvarpsins. Nefndin vill benda á að verkefnisstjórn vinnur tillögur að vernd svæða og nýtur við það tilstilli fjögurra faghópa með verksviðin:

I. Náttúrufar og menningarminjar.

II. Útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi.

III. Efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana.

IV. Virkjunarkostir og hagkvæmni þeirra.

Áður hefur verið talað um það hér. Um er að ræða heildstætt mat sem engin ein stofnun sinnir nú og því er lagt til að sett verði á fót verkefnisstjórn sem byggir á starfi verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Nefndin áréttar einnig að gerð er krafa um faglega þekkingu, þ.e. að í verkefnisstjórnina veljist fagfólk sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu á þeim sviðum sem starf hennar lýtur helst að. Verkefnisstjórnin skipar einnig faghópa með sérfræðingum á viðkomandi sviðum og lögð er rík áhersla á víðtækt samráð og opið ferli við vinnu verkefnisstjórnarinnar.

Einnig komu fram nokkrar athugasemdir hjá umsagnaraðilum um óraunhæfar kröfur um þau gögn er fylgja skuli beiðni um að verkefnisstjórnin fjalli um ákveðinn virkjunarkost. Nefndin tekur undir þetta að vissu marki og bendir á að þegar um ræðir háhitasvæði þar sem ekki er unnt að afla nægilegrar þekkingar nema með rannsóknarborunum, sem fara ekki fram fyrr en á síðari stigum, getur verið erfitt að gefa annað en almennar lýsingar eða áætlanir. Það er mat Orkustofnunar og gert er ráð fyrir því að ráðherra mæli nánar fyrir um það í reglugerð hvaða upplýsingar þurfi að fylgja beiðni til Orkustofnunar. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram komu við meðferð málsins, að þar sem þau gögn sem eru grunnur að mati á verndargildi náttúru Íslands er fyrst og fremst að finna í gagnagrunnum Náttúrufræðistofnunar Íslands sé eðlilegt að stofnunin verði einnig lögbundinn umsagnaraðili um hvort fyrirliggjandi gögn um einstaka virkjunarkosti séu nægjanleg. Með sömu rökum vill nefndin einnig bæta við Ferðamálastofu sem umsagnaraðila. Nefndin leggur til breytingartillögu þar að lútandi.

Nefndin fellst einnig á tillögur umsagnaraðila um að lengja frest almennings til að koma á framfæri athugasemdum við tillögur verkefnisstjórnar úr átta vikum í tólf. Það hefur sýnt sig að drjúgan tíma tekur að kynna niðurstöður verkefnisstjórnar og ýmis félagasamtök þurfa tíma til að kynna sér málið efnislega og koma að athugasemdum.

Nefndin leggur til þær breytingar að verndar- og orkunýtingaráætlun skuli taka mið af vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Fram kemur í 1. mgr. 28. gr. frumvarps til laga um stjórn vatnamála að opinberar áætlanir á vegum stjórnvalda, svo sem vegna skipulagsmála, náttúruverndar, orkunýtingar og samgangna, skuli vera í samræmi við þá stefnumörkun sem fram kemur í vatnaáætlun er varðar vatnsvernd. Af þeim sökum telur nefndin rétt að leggja til þær breytingar að verkefnisstjórn skuli hafa samráð við Umhverfisstofnun til að tryggja samræmi við verndar- og orkunýtingaráætlun og vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Gert er ráð fyrir því að ráðherra setji reglur um starfsemi verkefnisstjórnar að fengnum tillögum frá henni. Með vísan til aðkomu umhverfisráðherra að gerð verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt frumvarpinu leggur nefndin til breytingar á orðalagi 6. mgr. 10. gr. þannig að ráðherra setji í samráði við umhverfisráðherra reglur um hvernig verkefnisstjórn skuli starfa.

Það er mat nefndarinnar og Skipulagsstofnunar að verndar- og orkunýtingaráætlunin falli undir lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, sem skipulags- eða framkvæmdaáætlun, en frumvarpið gerir ekki ráð fyrir þessu. Leggur nefndin til breytingu þessu að lútandi sem hluta af málsmeðferð, samanber 10. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur einnig til breytingar á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins, þ.e. að fyrsta rammaáætlunin skuli einnig fara í umhverfismat áætlana.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Þetta var gert, virðulegi forseti, á Alþingi 29. mars 2011 og undir þetta nefndarálit skrifa auk þess sem hér stendur, Kristjáns Möllers, formanns iðnaðarnefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, Þráinn Bertelsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Margrét Tryggvadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara og Gunnar Bragi Sveinsson.

Virðulegi forseti. Á þskj. 1286 er gerð grein fyrir þeim breytingartillögum sem nefndin flytur vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða. Það er:

„1. Við 1. gr. Í stað orðanna „nýting háhitasvæða og landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti fallvatna“ komi: nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti.

2. Við 2. gr.

a. 1. mgr. orðist svo:

Lög þessi ná til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna.

b. Í stað orðanna „virkjun á fallvötnum og háhitasvæðum“ í 4. tölul. 2. mgr. og orðanna „virkjunar fallvatna og á háhitasvæðum“ í 5. tölul. 2. mgr. komi: virkjun til orkuvinnslu; og: virkjunar til orkuvinnslu.

3. Við 3. gr.

a. Í stað orðanna „áætlun til næstu 12 ára um vernd og nýtingu landsvæða vegna virkjunar fallvatna og háhita“ í 1. mgr. komi: áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

b. Í stað orðanna „verndar- og nýtingaráætlun“ í 2. mgr. og sömu orða hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarmynd: verndar- og orkunýtingaráætlun.

c. Í stað orðsins „nýtingarflokk“ í 2. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarmynd: orkunýtingarflokk.

d. 2. málsl. 3. mgr. orðist svo: Hún tekur þó ekki til stækkunar á virkjun nema stækkunin feli í sér matsskyldar framkvæmdir samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar eða úrskurði umhverfisráðherra.

e. Í stað orðsins „nýtingargildi“ í 4. mgr. komi: orkunýtingargildi.

f. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal tekið mið af vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

4. Við 5. gr. Orðin „fallvatna og háhitasvæða“ í 4. mgr. falli brott.

5. Við 10. gr.

a. Í stað orðanna „og Fornleifaverndar ríkisins“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: Fornleifaverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ferðamálastofu.

b. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Verkefnisstjórn skal hafa samráð við Umhverfisstofnun til að tryggja samræmi verndar- og orkunýtingaráætlunar og vatnaáætlunar samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

c. Í stað orðanna „átta vikur“ í lokamálslið 3. mgr. komi: tólf vikur.

d. 4. mgr. orðist svo: Að loknu samráðs- og kynningarferli, og að loknu umhverfismati í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, leggur verkefnisstjórn fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða í samræmi við flokkunina.

e. Fyrri málsliður 6. mgr. orðist svo: Að fengnum tillögum verkefnisstjórnar setur ráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, reglur um hvernig verkefnisstjórn skuli starfa, þ.m.t. um upplýsingaöflun, viðmið og matsaðferðir.

6. Við ákvæði til bráðabirgða. 2. mgr. orðist svo:

Áður en tillaga til þingsályktunar er lögð fram á Alþingi skal ráðherra kynna hana þeim aðilum sem greinir í 3. mgr. 10. gr. og gefa öllum kost á að koma á framfæri athugasemdum með tilgreindum hætti. Fara skal fram umhverfismat á tillögunni í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana.

7. Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.“

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, færa nefndarfólki í iðnaðarnefnd sérstakar þakkir fyrir mikla og góða vinnu við þetta stóra og mikilvæga mál, þessi grunnlög sem sett eru hér um rammaáætlun, og vekja sérstaklega athygli á því að allir nefndarmenn iðnaðarnefndar skrifa upp á þetta, en tveir að vísu með fyrirvara. Þetta er sem sagt tekið út úr nefndinni með níu samhljóða atkvæðum sem er mjög mikilvægt fyrir þetta mál vegna þess að grunnstefið sem við ætlum að hafa við þessa lagasetningu og við rammaáætlun er að ljúka deilum sem sífellt eru uppi um það hvað eigi að nýta og hvernig eigi að nýta það. Þess vegna finnst mér góður bragur á því, virðulegi forseti, að hv. iðnaðarnefnd skuli hafa náð því að sammælast um þessar breytingartillögur og yfirferð á þessu frumvarpi. Fyrir það vil ég nota tækifærið hér, þegar ég flyt nefndarálit nefndarinnar, að þakka öllum nefndarmönnum fyrir ágæta vinnu og góðu samstöðu í nefndinni um þetta mikilvæga mál.