139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[23:04]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að nýtingaráætlunin sem slík er verkefni iðnaðarráðherra. Verkefnisstjórnin, sem skipuð er sex aðilum eins og kveðið er á um auk þeirra fjögurra flokka sem vinna í umboði hennar, fjallar um þau atriði sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni og leggur fyrir ráðherra sem setur málið í umsagnarferli, eins og við töluðum um, og getur svo eftir atvikum breytt því áður en það kemur til Alþingis eða tekið tillögu verkefnisstjórnarinnar og lagt hana fyrir Alþingi. Það verður þá okkar að fjalla um málið.

Virðulegi forseti. Í kafla í nefndarálitinu sem fjallar, að ég held, um þetta atriði er líka fjallað um 3. mgr. en þar segir m.a. um náttúruvernd, með leyfi forseta:

„Tilgangur ákvæðisins er að tryggja að þau landsvæði sem þegar er búið að friðlýsa skv. 50. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, lendi ekki í nýtingarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði og standa þannig vörð um friðlýsingar. Í slíkum tilfellum er verkefnisstjórn heimilt að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði innan friðlýstra svæða til samanburðar við aðra kosti.“

Þetta verður gert eftir reglum og vinnutilhögun sem iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra setur verkefnisstjórninni og síðan kemur sá kaleikur til Alþingis og verður ræddur á lýðræðislegan hátt fyrir opnum tjöldum og eftir atvikum tekist á eða menn fallast í faðma og samþykkja allt. Það er ósk mín og ég held að vinnulagið í nefndinni hafi snúist um að vinna gott plagg sem tiltölulega mikil sátt (Forseti hringir.) verði um þannig að við getum hætt að rífast um þessa þætti vegna þess að við höfum nóga aðra til að rífast um á næstu árum.