139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum.

477. mál
[23:23]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem Grænland, Ísland og Færeyjar eiga sameiginlegt er annars vegar að þetta eru eyþjóðir og hins vegar að þetta eru fámennar þjóðir. Vandinn sem Færeyingar hafa kortlagt hjá sér og taka eftir og hafa áhyggjur af er þessi tíði brottflutningur kvenna frá Færeyjum. Það væri fróðlegt, og er m.a. tilefni þessarar þingsályktunartillögu, að bera saman aðstæðurnar í löndunum þremur og þróunina sem þar á sér stað. Við vitum t.d. að á landsbyggðinni á Íslandi má sjá sömu tilhneigingu og Færeyingar horfast í augu við nema hvað í Færeyjum er brottflutningurinn frá eyjunum til Danmerkur m.a. en á Íslandi er brottflutningurinn meira frá landsbyggðinni og til Reykjavíkur. En það eru konurnar sem fara og þegar þær eru farnar verður röskun sem þýðir að fjölskyldurnar og karlmennirnir, eiginmennirnir, fylgja í kjölfarið.

Þetta er málefni sem Vestnorræna ráðið hefur tekið upp á sína arma og hefur áhuga á að fylgja betur eftir og að ná fram pólitísku samstarfi og samráði milli velferðarráðherranna í löndunum þremur um að fara betur yfir þessa stöðu og fylgja m.a. eftir þeim skýrslum og athugunum sem núna liggja fyrir um stöðu kvenna og um konur og velferð og félagslegu athugunum sem gerðar hafa verið í Færeyjum á því sem þar hefur átt sér stað.