139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum.

477. mál
[23:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel rétt að taka fram að ég fagna að sjálfsögðu hinu vestnorræna samstarfi og skil það og held að það sé ákaflega mikilvægt. Ég fagna því jafnframt að Vestnorræna ráðið sýni stöðu einstæðra foreldra og barna þeirra áhuga og taki hana alvarlega.

Varðandi það að konur sem eru einar fyrirvinnur með börn fara margar frá Færeyjum annars vegar og á Íslandi frá landsbyggðinni til Reykjavíkur hins vegar þá fyndist mér áhugavert að skoða hvað það er í samfélagsgerðinni sem veldur því að einstæðum foreldrum fjölgar. Eru þessi eyríki sérstök í því tilliti? Hvað í samfélagsgerðinni gerir það að verkum að konur flýja? Auðvitað gengur tillagan út á það að einhverju leyti en þetta er áhyggjuefni. Ég held að það séu að mörgu leyti flóknari aðstæður fyrir börn að alast upp hjá einu foreldri og mikilvægt að samfélagið stuðli að fjölskylduvænu umhverfi þar sem ungir foreldrar gefast ekki upp á sambúð heldur velja að ala börn sín upp saman. Um leið vil ég að það komi skýrt fram að auðvitað er það grundvallarþáttur í kvenréttindum að konur hafi val um það hvernig þær haga lífi sínu. Það sýnir sig kannski í því að eftir að konur fóru að hafa raunverulegt val völdu margar þeirra að ala börn upp einar frekar en í sambúð. En mér finnst þetta áhugavert, er eitthvað í (Forseti hringir.) samfélagsgerð okkar, þessara eyríkja, sem ýtir undir það að konur ali einar upp börn sín?