139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Í dag ræðum við vantraust á ríkisstjórnina, kröfu um þingrof og kosningar. Tillagan er lögð fram fyrir hönd allra þeirra sem gefist hafa upp á ríkisstjórnarsamstarfi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Við erum að færa ríkisstjórninni skilaboð frá þjóðinni um að henni er ekki treyst. En þetta snýst ekki einungis um ríkisstjórnina. Með kröfu um kosningar erum við að bjóða nýtt upphaf og gefa fólkinu í landinu kost á því að velja á milli ólíkra leiða út úr því ástandi sem hér ríkir.

Það sem við erum að segja er að þingið þurfi að endurheimta trúnað og traust kjósenda, allra þeirra sem gera þá einföldu kröfu að Alþingi vinni í þeim málum sem mikilvægust eru fyrir þjóðina hverju sinni. Það verður ekki deilt um að á milli stjórnmálaflokkanna er ekki ágreiningur um það markmið að bæta lífskjör þjóðarinnar, en leiðirnar að því markmiði eru gjörólíkar.

Ríkisstjórnin er eins og grindahlaupari sem missteig sig í upphafi en heldur hlaupinu áfram, hefur aldrei náð taktinum, fellir hverja einustu hindrun á leið sinni. Það hefur enginn lengur nokkra einustu von um að hún muni skila sér í mark með nokkurri reisn. (Fjmrh.: Þetta er maraþonhlaup.)

Bersýnilega nær tillaga um vantraust ekki fram að ganga jafnvel þótt hún njóti stuðnings allra stjórnarandstöðuþingmanna. En staðreynd er að margir í stjórnarliðinu hafa beinlínis gefið tilefni til þess að leggja slíka tillögu fram. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa gert það með ummælum um ónýta efnahagsstefnu. Ég nefni hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson sem setti ríkisstjórnina á tveggja mánaða skilorð vegna atvinnumála fyrir hálfu ári síðan. Skilorðinu hefur ekki verið aflétt enda er ekki eins og ríkisstjórninni hafi tekist að sannfæra þá sem eiga allt undir því að hér verði fjárfest, að sannfæra aðila vinnumarkaðarins um að hér sé að skapast umhverfi fyrir fjárfestingar og vöxt í atvinnulífinu. Nei, þeim hefur ekki einu sinni tekist að sannfæra sitt eigið fólk um að þau hafi fundið leiðina út úr efnahagsvandanum.

Nú fá þeir þingmenn sem efast hafa um leið ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum tækifæri til að lýsa áliti sínu á stöðunni. Margir þingmenn Vinstri grænna, þeir sem hafa nú þegar ekki beinlínis yfirgefið þingflokk sinn, hafa lýst vanþóknun á meðferð Evrópusambandsmálsins. Þetta er líka tækifæri fyrir þá til að taka afstöðu með sannfæringu sinni og stefnu flokks síns. Að þessu leyti til er tillagan lögð fram til að fá á hreint í umboði hvaða þingmanna ríkisstjórnin situr. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á málflutning sem þennan ætli þessir þingmenn ekki að gera hann að úrslitaatriði um stuðning sinn við ríkisstjórnina. Í dag taka allir þessir þingmenn ábyrgð á ummælum sínum með atkvæði sínu.

Á endanum þurfum við í sjálfu sér ekki að vera sammála um á hvaða forsendum við greiðum atkvæði með tillögunni. Með leyfi forseta vitna ég í orð hv. þm. Atla Gíslasonar þar sem hann sagði eftirfarandi í grein í Morgunblaðinu um aðildar- og aðlögunarviðræður ríkisstjórnarinnar vegna Evrópusambandsins:

„Hér er um fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu að ræða. Framtíð Íslands, ríkisstjórnarsamstarfs í eitt eða fleiri kjörtímabil, er hjóm eitt í þeim samanburði.“

Það er um það sem þessi tillaga um vantraust fjallar um. Hún fjallar um hagsmuni Íslands, uppbyggingu og endurreisn, von og framtíðarsýn. Það þurfa allir þingmenn að gera upp við sig í dag. Er þessum mikilsverðu hagsmunum fórnandi fyrir minni hagsmuni einstakra persóna hér á þingi og stöðu þeirra í stigveldi stjórnskipunarinnar?

Við þurfum í sjálfu sér ekki að leita lengra en í 1. mgr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar til að sjá að henni hefur algerlega mistekist ætlunarverk sitt. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er mynduð um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og leita þjóðarsamstöðu um leið Íslands til endurreisnar — nýjan stöðugleikasáttmála.“

Svo mörg voru þau orð.

Ég veit ekki hvort ég á að þreyta þingheim með umræðu um stöðugleikann og stöðugleikasáttmálann sem aðilar vinnumarkaðarins gengust inn á á sínum tíma að gera við ríkisstjórnina, einungis til að vera sviknir um allt sem í honum fólst. Nú er svo komið að kjaraviðræður hökta þrátt fyrir að allar viðræður samningsaðila, allar væntingar þeirra hafi verið keyrðar niður í gólfið.

Ef ríkisstjórnin hefði staðið við sinn hluta stöðugleikasáttmálans og verklegar framkvæmdir hefðu náð fram að ganga hefði fjárfesting á þessu ári, á árinu 2011, verið rúmum 100 milljörðum meiri en við horfum fram á. Það er skemmst frá því að segja að þær fyrirætlanir gengu ekki eftir en loforðið hljómaði vel. Það hefur ekki skort á áætlanir hjá þessari ríkisstjórn. Það hefur enginn skortur verið á fögrum fyrirheitum, það hefur bara skort verk og efndir.

Mikilvægasta verkefni okkar í dag eftir mikið samdráttarskeið er að tryggja að við getum vaxið inn í framtíðina. Hvarvetna þar sem samdráttar hefur gætt í löndunum í kringum okkur hafa stjórnvöld lagt höfuðáherslu á að hefja nýtt tímabil vaxtar. Við skulum leyfa okkur að staldra aðeins við það atriði og spyrja: Hvers vegna þurfum við hagvöxt? Hvers vegna er hann mikilvægur? Og: Hvernig getum við skapað hann? Því var reyndar svarað í minnisblaði sem fylgdi stöðugleikasáttmálanum á sínum tíma. Þar segir:

„Við þurfum hagvöxt til að forða atvinnuleysi sem nú er að festa sig í sessi. Við þurfum hagvöxt til að auka verðmætasköpun svo hægt sé að hækka laun. Við þurfum hagvöxt almennt til að tryggja betri lífskjör í landinu.“

Við núverandi aðstæður verður hagvöxtur fyrst og fremst skapaður með nýrri fjárfestingu. Hann verður ekki skapaður með auknum opinberum útgjöldum sem við höfum ekki efni á þegar ríkissjóður er rekinn með 100 milljarða halla, eins og átti við á síðasta ári, og það er óraunhæft að ætla að heimilin í landinu muni skapa hagvöxt með einkaneyslu eftir þá miklu kaupmáttarrýrnum sem þau hafa mátt þola undanfarin tvö ár. Nei, það þarf fjárfestingu. Hún er grundvöllur þess að hér fari atvinnulífið að dafna. Og áherslur okkar sjálfstæðismanna í efnahagsmálum hafa miðað að því að eyða óvissu og nýta fjárfestingartækifæri sem okkur bjóðast. Við þurfum að hvetja atvinnulífið af stað.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Hún hefur skapað óvissu og hún hefur hafnað því að nýta tækifærin sem okkur hafa staðið til boða. Þeirri stöðnum sem hún ber ábyrgð á má lýsa sem almennu átaki gegn atvinnuuppbyggingu í landinu, átaki sem valdið hefur gríðarlegu tjóni og mun einungis aukast að óbreyttu. Hún hefur skapað óvissu með því að setja á dagskrá innköllun aflaheimilda í sjávarútvegi fyrir rúmum tveimur árum en hún hefur ekki enn svarað því hvað eigi að taka við. Það er því óhætt að segja að hún sé með athugun á endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins í skrúfunni.

Hún hefur líka valdið óvissu með sífelldum skattahækkunum og skaðlegum breytingum á skattkerfinu sem fylgt var eftir með orðunum: „You ain't seen nothing yet.“ Með þessu og hótunum um þjóðnýtingu fjárfestinga erlendra aðila í landinu og með því að festa gjaldeyrishöftin í sessi virðist ríkisstjórnin stefna að því að halda íslensku atvinnulífi í eilífri eyðimerkurgöngu.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í ræðu fyrrverandi stjórnarandstöðuþingmanns. Þar segir:

„Þegar slíkar blikur eru á lofti og kjarasamningar fram undan þarf þjóðin fyrst og fremst á að halda sterkri og samhentri ríkisstjórn sem eyðir þeirri óvissu sem hvarvetna ríkir í efnahags- og atvinnulífinu. […] Ríkisstjórn sem hefur traust aðila vinnumarkaðarins í erfiðum kjarasamningum sem fram undan eru. Þá traustu leiðsögn sem þjóðin þarf á að halda er þessi ríkisstjórn ófær um að veita vegna innbyrðis sundurlyndis og stefnuleysis við stjórn landsmálanna.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, í október 1994 í umræðum um vantraust á ríkisstjórn. Þessi ummæli féllu 17 árum of snemma. En svo vitnað sé í hæstv. forsætisráðherra á ný hlaut þeirra tími að koma. (Gripið fram í: Amen.)

Lykillinn að viðreisn landsins er sá að skapa verðmæti. Það þarf að greiða fyrir innlendri og erlendri fjárfestingu og sá fræjum fyrir uppskeru sem skilar sér í atvinnu á næstu árum. Íslenska þjóðin þarf sárlega á hagvexti að halda svo skapa megi störf handa þeim þúsundum Íslendinga sem nú ganga um atvinnulaus. Ríkisstjórnin hefur reynst óhæf til að leysa þau verkefni. Listinn er reyndar langur. Óvissa í rekstrarumhverfi, fjandsamleg afstaða gagnvart fjárfestingum, skattarnir sem ég hef minnst á, auknar álögur á öllum sviðum, skuldavandi heimila og fyrirtækja viðvarandi, landflótti vegna atvinnuleysis. Það segir meira en mörg orð um stöðuna þegar Íslendingar sem fara inn á vef Vinnumálastofnunar sjá að þar stendur til boða aðstoð við atvinnuleit í útlöndum. (Gripið fram í.) Vandinn er sá að ríkisstjórnin hefur engan raunverulegan vilja til samstarfs, hvorki við aðila vinnumarkaðarins né á hinu pólitíska sviði.

Berlega kom í ljós þegar ákvörðun var tekin á fundi Norðuratlantshafsráðsins um að taka yfir hernaðaraðgerðir í Líbíu að samráð er ekki haft, ekki einu sinni milli flokkanna, um mikilvægar ákvarðanir. Öll sú orka sem fara á í að vinna þjóðinni gagn fer í innanflokksátök. Stjórnmálaflokkarnir eru jafnvel ósammála um þau mál sem þeir leggja sjálfir fram á Alþingi; um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, fyrningarleið í sjávarútvegi og fjárlög. Allt eru það dæmi um mál sem orðið hafa að deiluefni bæði innan stjórnarflokkanna og ekki síður á milli þeirra.

Einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, hefur sett endurreisn landsins í gíslingu í einstrengingslegum tilraunum sínum til að þvinga þjóðina inn í Evrópusambandið, studd af vinstri grænum sem flestir virðast láta sér vel líka þrátt fyrir stefnu flokksins í allt aðra átt. Augljóst er að aðild að Evrópusambandinu er í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar og aðildarferlið einungis til þess fallið að auka enn frekar á sundrungu og erfiðleika hennar.

Grunngildi og lög hafa verið virt að vettugi hjá stjórnarflokkunum. Forsætisráðherra hefur brotið jafnréttislög og umhverfisráðherra var dæmd fyrir lögbrot í tengslum við aðalskipulag Flóahrepps. Forsætisráðherra hefur í raun og veru, eftir að hún sjálf lagði til við þingið og fékk það samþykkt að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála væru bindandi, bara tvo valkosti. Annar er sá að höfða dómsmál til að fá niðurstöðunni hnekkt, hinn er sá að semja við þann sem brotið var á. En hvað velur forsætisráðherrann? Að skipa enn eina nefndina. Hún setur málið í nefnd og reynir að forðast eigin ábyrgð.

Skemmst er að minnast þess að fyrstu almennu kosningarnar í landinu voru dæmdar ógildar. Það gerðist á vakt þessarar ríkisstjórnar og í framhaldinu sniðgekk stjórnarmeirihlutinn niðurstöðu Hæstaréttar Íslands.

Frú forseti. Ríkisstjórnina skortir traust. Ríkisstjórnin hefur ekki stuðning fólksins í landinu. Hún forgangsraðar enda ekki í þágu Íslendinga. Hana skortir framtíðarsýn. Ríkisstjórnina skortir skilning á því að í mannauði þjóðarinnar felast verðmætin. Við þurfum að virkja kraftinn í fólkinu í þessu landi til þess að komast af stað, til þess að hefja nýja lífskjarasókn.

Hæstv. ráðherrar, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, hafa fengið umboð, þau hafa fengið tíma og þau hafa fengið tækifæri til að leysa vanda þjóðarinnar. Þeim hefur algjörlega mistekist það ætlunarverk sitt. (Gripið fram í.) Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að boðað verði til kosninga hið fyrsta.

Af öllum framangreindum ástæðum er hér lögð fram vantrauststillaga á ríkisstjórnina sem hlýtur að njóta stuðnings allra þeirra sem sitja í stjórnarandstöðu og þeirra sem ætla að standa við stóru orðin og sitja í stjórnarliðinu. Í tillögunni felst jafnframt að gengið verði til kosninga þannig að við getum endurheimt virðingu og traust þessarar mikilvægustu og valdamestu stofnunar landsins. Njóti hún ekki trausts eru forsendurnar fyrir uppbyggingunni ekki til staðar.