139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[16:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Allar aðstæður voru til staðar við upphaf árs 2009 til að Ísland ynni sig hraðar út úr kreppunni en flest önnur lönd. Því miður hefur raunin orðið önnur. Þrátt fyrir að skarpri niðursveiflu, samdrætti í efnahagsmálum, fylgi oft á tíðum skörp uppsveifla þegar hræðslunni linnir hefur ekkert slíkt gerst á Íslandi. Við höfum horft á þróunina í löndunum í kringum okkur þar sem varð veruleg niðursveifla mjög víða en eins og svo oft eftir mikla niðursveiflu hefur þar orðið töluverður hagvöxtur á síðustu tveimur árum.

Hér hefur hins vegar ríkt áfram stöðnun. Í tvö og hálft ár hefur ýmist verið stöðnun eða í rauninni áframhaldandi samdráttur löngu eftir að spár sem gerðar voru við lok árs 2008 og í upphafi árs 2009 sögðu fyrir um að hér ætti að vera hafinn töluverður hagvöxtur.

Hæstv. forsætisráðherra vitnaði í greiningu tveggja ágætra, raunar prýðilegra nóbelsverðlaunahafa, Krugmans og Stiglitz, á þróuninni á Íslandi. Þessir menn hafa fjallað töluvert um Ísland og kosti landsins, kosti þeirrar stöðu sem landið er í, en um hvað hafa þeir verið að fjalla? Þeir hafa fjallað um tvennt. Annars vegar að Íslendingar hafi tekið rétta ákvörðun í því að láta ekki skuldir einkafyrirtækja, bankanna, lenda á almenningi, og hins vegar hafi Ísland haft þá öfundsverðu stöðu að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil. Sama hvað mönnum þyki um galla þess gjaldmiðils hjálpi hann Íslendingum verulega nú til að vinna sig út úr stöðunni.

Hver hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar verið hvað þessi tvö atriði varðar? Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í að fara yfir viðhorf hennar til þess að láta skuldir einkafyrirtækis lenda á almenningi, það hefur verið helsta kappsmál ríkisstjórnarinnar síðastliðin tvö ár. Hún hefur beitt til þess öllum brögðum sem hún hefur getað og linnulausum hræðsluáróðri og í öllum meginatriðum stutt málstað þeirra sem hafa viljað færa þessar kröfur yfir á íslenskan almenning.

Hitt atriðið er gjaldmiðillinn. Við vitum ekki alveg hvar við höfum ríkisstjórnina í því máli en við vitum þó að ráðherra þessarar ríkisstjórnar og sá sem ríkisstjórnin setti yfir Seðlabankann hafa í viðtölum í erlendum fjölmiðlum talað með þeim hætti að í öðrum löndum mundu slíkir menn ekki endast í embætti út daginn. Jafnvel efnahagsráðherra landsins heldur því fram að gjaldmiðill landsins sé ónýtur, enginn muni vilja fjárfesta í landinu á meðan hann er til staðar, enginn muni vilja fjárfesta á Íslandi yfir höfuð fyrr en landið sé komið inn í Evrópusambandið og þar fram eftir götunum.

Ég held að ekki sé hægt að finna annað það land á Vesturlöndum þar sem efnahagsráðherra ríkis kæmist upp með að tala með þessum hætti. Þannig að þegar hæstv. forsætisráðherra vísar í nóbelsverðlaunahafana Krugman og Stiglitz máli sínu og ríkisstjórnarinnar til stuðnings er mjög holur hljómur í því vegna þess að þeir vísa til atburða sem urðu áður en ríkisstjórnin kom að, atburða sem ríkisstjórnin hefur gert sitt besta til að snúa við og fara í þveröfuga stefnu við það sem þessir nóbelsverðlaunahagfræðingar hafa bent á sem helstu styrkleika landsins.

Við búum við þær aðstæður nú að fjárfestar, bæði innlendir og erlendir, hrökklast frá, beinlínis hrökklast frá vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. Viðhaldið er stefnu sem er nánast eins og hönnuð til að viðhalda kreppu. Allt er gert öfugt við það sem menn gera við slíkar aðstæður, öfugt við það sem menn hafa lært af reynslu undanfarinna áratuga, jafnvel aldar. Skattar eru hækkaðir aftur og aftur og skattkerfið flækt. Skuldamál einstaklinga og fyrirtækja eru enn í ólestri, tveimur og hálfu ári eftir efnahagshrunið þrátt fyrir að úrlausn skuldamála sé meginforsenda þess að hagvöxtur geti hafist á ný.

Skriffinnska og eftirlit eru hins vegar aukin á öllum sviðum. Komið er í veg fyrir orkuvinnslu með öllum tiltækum ráðum og gjarnan settar á svið heilmiklar leiksýningar í kringum það eins og við fengum að fylgjast með varðandi umræðuna um Búðarhálsvirkjun. Nú ætti mönnum ekkert að vera að vanbúnaði að ráðast í þær framkvæmdir eftir að strax spöruðust 26 milljarðar við afstöðu þjóðarinnar til Icesave-málsins.

Ísland er komið á blað með löndum þar sem fjárfestar telja sig þurfa að óttast pólitíska óvissu, svokölluð pólitísk óvissa er beinlínis reiknuð inn í það þegar menn meta hvort leggjandi sé í þá áhættu að fjárfesta á Íslandi. Og menn óttast eignarnám. Þótt ekki hafi mikið verið rætt um Icesave-málið í hópi erlendra fjárfesta eða þeirra sem hafa hugsanlega velt fyrir sér að hefja hér atvinnuuppbyggingu hefur mjög mikið verið rætt um að í landinu sitji ríkisstjórn sem lýsi því yfir að það sé eðlilegt pólitískt verkfæri hverrar ríkisstjórnar að taka hluti eignarnámi, beita þjóðnýtingu þegar svo ber undir.

Ráðherrar hafa líka verið ófeimnir við að skipta sér af framgangi réttvísinnar og störfum dómstóla bæði áður og eftir að niðurstaða þeirra liggur fyrir. Og þegar ráðherrar eru sjálfir dæmdir fyrir brot á lögum er því svarað á þeim nótum að hugsjónir séu ofar lögunum. Grundvallaratriðum réttarríkisins á borð við sakleysi uns sekt er sönnuð er stefnt í óvissu af ríkisstjórninni. Undirstöðuatvinnugreinunum, atvinnugreinunum sem hefðu átt að draga vagninn út úr kreppunni, sem mynda grunnstoð fyrir aðra atvinnusköpun, þeim er haldið í varanlegri óvissu, fullkominni óvissu. Og þegar lítur meira að segja út fyrir sögulegar sættir í því efni kemur hæstv. forsætisráðherra fram og beinlínis eyðileggur þá sátt til að geta viðhaldið grýlunni, vegna þess að þessi ríkisstjórn byggir tilveru sína ekki á eigin afrekum eða eigin gjörðum eða eigin stefnu, hún byggir tilverurétt sinn á ytri ógnum, einhverjum óvinum, óvinum byltingarstjórnarinnar.

Við heyrðum þetta svo vel í ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan. Hún fjallaði ekkert um raunveruleg afrek ríkisstjórnarinnar, hún fjallaði fyrst og fremst um að einhverjar hættur væru á ferðinni og ekki væri á það hættandi að hleypa þeim að. Þess vegna væri þessi ríkisstjórn líklega skásti kosturinn.

Hér eru í gildi ströngustu gjaldeyrishöft sem sést hafa í Evrópu frá því að Þýska alþýðulýðveldið leið undir lok. Ríkisstjórnin er nýbúin að framlengja höftin til loka árs 2015. Svo skilja menn ekkert í því að hér ríki stöðnun, að hingað streymi ekki fjármagn, að atvinnuleysi aukist áfram, að á meðan menn hafa verið að vinna bug á atvinnuleysinu og minnka það víða annars staðar gangi ekkert að vinna bug á atvinnuleysinu hér. Mikilvægasta atvinnumálið er þó að leyfa þeim fyrirtækjum sem enn eru starfandi að lifa áfram en það hefur ekki verið gert. Litlum og meðalstórum fyrirtækjum, raunar flestöllum fyrirtækjum yfir höfuð, er haldið í varanlegri óvissu með stöðu sína, skuldir og skatta og nú eru fjölmörg lítil og meðalstór fyrirtæki að deyja kerfisdauða í óvissu með allt sitt en samtímis skattlögð til ólífis. Þetta er þveröfugt við það sem menn gera alls staðar annars staðar þegar þeir standa frammi fyrir kreppuástandi eins og við Íslendingar gerum nú.

Það versta við ríkisstjórnina er þó líklega að vegna þess að hún byggir tilveru sína ekki á eigin framtíðarsýn eða afrekum heldur einhvers konar ytri ógn, einhverjum óvinum sem alltaf eru handan við hornið, telur hún sig þurfa að draga stöðugt úr almenningi kjark og draga alltaf upp þá mynd að hættan eigi að ráða för hjá okkur. Við eigum alltaf að byggja ákvarðanir okkar á hræðslu, einmitt þegar við þurfum ríkisstjórn sem telur kjark í almenning og berst fyrir réttindum almennings. Ef það er eitthvað sem þessi ríkisstjórn hefur ekki gert er það að verja rétt almennra borgara.

Það þarf ekki að fara í löngu máli yfir sögu Icesave-málsins. Í dag birtist leiðari í Financial Times, meginriti fjármálaheimsins. Yfirskrift hans er: Ísland býður fautunum birginn. Niðurstaða atkvæðagreiðslu sýnir að borgarar geta verið teknir fram yfir banka. Sú niðurstaða er svo sannarlega ekki ríkisstjórninni að þakka. Það var ekki hún sem tók rétt almennings fram yfir rétt banka. Það var ekki þessi ríkisstjórn sem tók rétt Íslendinga fram yfir kröfur erlendra ríkja. Hún neytti allra færa til að setja á Íslendinga skuldaklafa sem engin lagastoð var fyrir. Þess vegna var ræða hæstv. forsætisráðherra áðan í fyrsta lagi fullkomin öfugmælaræða, ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum. En verra var þó að í fyrsta skipti á undanförnum tveimur árum mátti finna fyrir reiði og tilfinningu í málflutningi hæstv. forsætisráðherra. Hvenær kemur það fram? Þegar hæstv. ráðherra er að verja eigin stöðu, eigið ráðuneyti.

Ég hefði viljað finna þessa reiði og tilfinningu hjá hæstv. forsætisráðherra þegar hún stóð frammi fyrir því að verja rétt íslensks almennings en fyrir því var ekki að finna. Ríkisstjórnin hugsar nefnilega ekki um neitt nema sjálfa sig, hún hugsar ekki um neitt nema að sitja. Þess vegna hefur hún setið af sér atburði sem hefðu orðið til þess að allar aðrar ríkisstjórnir í Íslandssögunni hefðu sætt sig við að þeirra tími væri liðinn. (Gripið fram í.) En þessi ríkisstjórn ætlar bara að sitja áfram sama hvað það kostar.

Nú þegar niðurstaða liggur fyrir í því mikla deilumáli sem Icesave-málið er fannst mér eðlilegt að ríkisstjórnin fengi enn eitt tækifæri til að sanna sig. En hver hefur raunin orðið? Það er sama í hvaða erlenda fjölmiðla maður lítur og flettir upp fréttum þar sem hæstv. forsætisráðherra er til svara fyrir Íslands hönd, alls staðar eru svörin á þá leið að Íslendingar hafi valið versta hugsanlega kost, að forsætisráðherrann óttist mjög niðurstöðu dómsmáls, að forsætisráðherra óttist pólitíska og efnahagslega upplausn, kaos. Þetta segir hæstv. forsætisráðherra á sama tíma og því er haldið fram að allir rói að því öllum árum að reyna að sannfæra lánshæfismatsfyrirtækin, sem eru ríkisstjórninni svo hugleikin, um að þau megi nú ekki lækka lánshæfismat Íslands.

Hvaða skilaboð eru það þegar hæstv. forsætisráðherra talar um efnahagslega og pólitíska upplausn í landinu? Er það líklegt til að fá þessi fyrirtæki til að hækka lánstraust Íslands? Ætli það, enda hefur ríkisstjórnin frá upphafi talað á einn hátt, boðað að hún ætli að gera svo margt en þegar skoðað er hverjar efndirnar eru eru þær ýmist engar eða þveröfugar við það sem talað var fyrir.

Hvað höfum við svo séð gerast síðustu daga? Þrátt fyrir frammistöðu ríkisstjórnarinnar hélt skuldatryggingarálag Íslands, hinn raunverulegi mælikvarði á lánstraust ríkisins, áfram að styrkjast og hefur ekki verið sterkara frá hruni þrátt fyrir allar hótanirnar, allan málflutninginn um að ef Íslendingar féllust ekki á Icesave-kröfurnar væri öll von úti fyrir íslenskt efnahagslíf.

Að sjálfsögðu var þetta ekki raunhæft, að sjálfsögðu var þetta ekki rökrétt. En ætlar ríkisstjórnin að taka ábyrgð á málflutningi sínum nú? Að sjálfsögðu ætlar hún ekki að gera það. Ríkisstjórnin ætlar ekki að taka ábyrgð á neinu. Hún ætlar ekkert að gera og ætlar ekki að taka ábyrgð á neinu. Þess vegna er ekki um annað að ræða en að ríkisstjórnin fari frá, hún verði sett af og við fáum nýja allt, allt öðruvísi ríkisstjórn.