139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[17:06]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við verðum vitni að skemmtilegum ræðum í dag, það er hiti í mönnum og væri óskandi að menn töluðu oftar af eins mikilli tilfinningu í þessum sal.

Okkur í Hreyfingunni skolaði inn á þing vorið 2009. Við komum hér inn, nýtt fólk, eftir algert hrun stjórnmálanna og efnahagslífsins og áttum kannski von á því að einhver ný hugsun mundi skila sér inn á þing eftir allar þær hörmungar sem á undan höfðu gengið. Við leituðum strax í upphafi eftir samstarfi við alla flokka á þingi, þar á meðal ríkisstjórnarflokkana, og við höfum aldrei skilgreint okkur í stjórnarandstöðu heldur tekið afstöðu í málum eftir því sem okkur finnst viðeigandi. Það munum við einnig gera í þessu máli.

Við höfum oft, oftar en nöfnum tjáir að nefna, rétt fram sáttarhönd og alltaf tekið þátt í þeim samráðsfundum sem við höfum verið boðuð á af hálfu ríkisstjórnarinnar. Því miður hefur öllu því sem við höfum haft fram að færa á þeim fundum verið hafnað. Það hefur ekki verið mikið um samráð nema að nafninu til. Ég vil þó nefna að innan ráðherraliðs og þingmanna ríkisstjórnarflokkanna er mjög margt hæft og vel meinandi fólk sem við höfum öll átt mjög gott og mikið samstarf við. Það hefur mjög oft verið ánægjulegt að starfa með þessu fólki. Það er hins vegar forusta ríkisstjórnarinnar sem veldur hér vandræðum og gerir það að verkum að við erum föst í gömlum hjólförum afturhaldstímabils þar sem gamaldagsmeirihlutaofbeldispólitík ræður ríkjum og það sést ekki upp úr hjólförunum. Við reyndum strax í gær þegar við fréttum af þessari vantrauststillögu að fá að leggja í staðinn fram vantrauststillögu á hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra vegna þess að við teljum ekki endilega heppilegt að öll ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn fari frá. Við teljum að vandinn liggi hjá forustufólkinu. Okkur var tjáð að vegna þess að Ólafur Jóhannesson hefði skrifað í bók á sjötta áratug síðustu aldar að þetta væri ekki hægt þá væri þetta þar með ekki hægt í dag. Það er dæmi um þær gamaldagshefðir sem einhverjir menn settu sjálfum sér væntanlega til hagsbóta á sínum tíma sem ekki fæst enn þá breytt og þess vegna sitjum við uppi með vinnulag á Alþingi sem er að mörgu leyti úrelt og hefur ekki tekist að breyta, ekki bara í þessu atriði heldur fjölmörgum öðrum.

Það hefur ekki verið mikill vilji til þess á Alþingi að reyna að breyta verklagi þingsins og hrista upp í vinnubrögðunum. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með störfin á Alþingi.

Hvað ríkisstjórnina varðar er ekki hægt að draga í efa að hún hefur brugðist á fjölmörgum sviðum. Hún hefur algjörlega brugðist í skuldavanda heimilanna, hún hefur hafnað því að leiðrétta skuldir vegna gengisfalls krónunnar og verðbólguskots sem hefur fært tugi eða hundruð milljarða frá heimilunum til fjármálastofnana. Þrátt fyrir ítrekað samráð, oft og mörgum sinnum, m.a.s. á stóra sviðinu uppi í Þjóðmenningarhúsi, virðist sem allt það samráð hafi verið fyrir fram skrifað leikrit, sérstaklega þegar í ljós kom að það stóð ekki einu sinni til að taka nema lítinn hluta skulda heimilanna inn í myndina.

Þetta samráð var, eins og svo margt annað sem við höfum rekið okkur á, vel skrifað leikrit með fyrir fram gefinni niðurstöðu. Icesave-málið er enn eitt dæmið um mál sem rekið hefur verið á forsendum blekkingar hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra.

Strax í upphafi, í fyrstu skrefum málsins, þegar hér var minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins þar sem búið var að gefa loforð um að hann yrði með á öllum stigum Icesave-málsins, var unnið bak við Framsóknarflokkinn og vinna hafin við Icesave þó að búið væri að lofa því að gera það ekki. Þegar fyrsti Icesave-samningurinn kom inn í þingið stóð ekki einu sinni til að birta hann þinginu. Það var setið á honum dögum saman og það var ekki fyrr en honum var lekið af konu sem átti sæti í hollensku sendinefndinni til íslenskra fjölmiðla að hæstv. fjármálaráðherra birti samninginn.

Í öllu því Icesave-ferli, hvort sem um var að ræða Icesave 1, 2 eða 3, hefur þessi ríkisstjórn ekki lagt sig fram um að gæta hagsmuna Íslendinga. Í þverpólitíska samstarfinu sumarið 2009 var eins og við væri að etja fulltrúa breskra og hollenskra stjórnvalda en ekki fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Sá samningur fór eins og hann fór og svo kom Icesave 2. Við vitum hvernig hann var keyrður í gegnum þingið og hvernig þjóðin hafnaði meðferð ríkisstjórnarinnar á þeim samningi. Síðan kom Icesave 3, það linnti ekki látum. Við vitum líka hvernig meðferð þess samnings var í þinginu, gert var skriflegt samkomulag rétt fyrir jólahlé þingsins milli þingflokksformanna og forseta Alþingis um að taka málið inn í þingið og afgreiða það í samvinnu í fjárlaganefnd til að koma því af stað. Það skriflega samkomulag var rofið tveimur dögum síðar.

Það eru þau vinnubrögð sem hafa komið mér á óvart á Alþingi. Ég margítrekaði við þingflokksformenn og forseta Alþingis hvað væri í gangi, en þeim ítrekunum var ekki einu sinni svarað. Í kjölfar þess samnings og þeirrar ákvörðunar forsetans að vísa honum til þjóðarinnar hófst enn á ný sá sami botnlausi hræðsluáróður hótana ríkisstjórnarinnar, stjórnsýslunnar, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og hluta háskólasamfélagsins sem var keyrður upp í öfgakenndustu mynd sem hægt er að hugsa sér, eingöngu til að ná fram vilja ríkisstjórnarinnar. Það eru stjórnmál sem mér misbýður gróflega.

Í framhaldi, þó að ekki séu margir dagar liðnir, hefur ríkisstjórnin líka haldið illa á málum og er skemmst að minnast greinar hæstv. forsætisráðherra í Guardian þar sem hún talar illilega af sér.

Skuldir ríkissjóðs og stofnana ríkisins eru sennilega orðnar óviðráðanlegar og á næsta þingi, næsta haust, við fjárlagagerðina, mun þurfa að hækka skatta enn meira og skera enn meira niður af innviðum samfélagsins. Það sem verst er þó að mínu mati er að þessari ríkisstjórn hefur mistekist að gera upp hrunið. Viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis voru að ræða hana í einn dag á Alþingi og loka rannsóknargögnin niðri í tunnu á Þjóðskjalasafninu í 40 ár. Skipuð var nefnd alþingismanna til að skoða þátt Alþingis og ábyrgð ráðherra og öllum tillögum um að fá eitthvert utanaðkomandi álit á aðkomu Alþingis í hruninu var alfarið hafnað.

Hér eru enn inni þingmenn og ráðherrar sem þáðu milljónir frá bönkunum og þeir sitja enn sem ráðherrar og þingmenn, ráðherrar og þingmenn sem vissu um yfirvofandi hrun en hafa ekki haft geð í sér að yfirgefa þingið. Það er þetta sem er að á Alþingi í dag. Atkvæðagreiðslan 28. september um ráðherraábyrgðina og landsdóm var síðasta tækifæri þessa Alþingis sem nú situr til að ná sátt við þjóðina og gera upp hrunið. Því tækifæri var hafnað og 23 þingmenn greiddu atkvæði til að vernda félaga sína í hrunstjórninni.

Utan nokkurra atriða sem hv. þingmannanefnd sem var skipuð lagði til hefur Alþingi með stuðningi meiri hlutans reynt að sópa hruninu undir teppið og uppfylla ósk varaformanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ólafar Nordal, um að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mundi vonandi bara þvælast fyrir þinginu tímabundið.

Miklar vonir voru bundnar við þessa ríkisstjórn. Ég batt miklar vonir við ríkisstjórnina á sínum tíma og ég fagnaði mjög úrslitum kosninganna vorið 2009 þegar ég sá hverjir höfðu hlotið meiri hluta. Þær vonir byggðust á stefnuskrám þeirra flokka sem lagðar voru fram í aðdraganda kosninganna og þeim stjórnarsáttmála sem síðar var gerður milli þessara flokka. Þar hafa því miður kosningaloforðin og stefnuskrárloforðin farið fyrir lítið. Öll kosningaloforð um lýðræðisumbætur, svo sem þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör, voru hjóm eitt, fjármál stjórnmálaflokka fengu einhvers konar yfirklórsmeðferð og eru enn undirorpin spillingu og grunsemdum. Það er af nógu að taka. Afstaða mín og okkar í þessari vantrauststillögu er ekki byggð á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, við höfum alla tíð haldið því fram að það eigi að skilja á milli þjóðaratkvæðagreiðslna annars vegar og niðurstaðna þeirra hins vegar og afstöðu manna til þeirrar ríkisstjórnar sem situr hverju sinni. Afstaða okkar til þessarar tillögu og afstaða mín er heldur ekki stuðningur við tillögu Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins, síður en svo. Afstaða mín til þessarar tillögu mun byggja á verkum og verkleysi þessarar ríkisstjórnar. Hún er ekki afstaða við stjórnarflokkana og þingmenn þeirra, heldur fyrst og fremst afstaða til forustu ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Alþingi og stjórnmálastéttin á eftir að gera upp hrunið og Alþingi og stjórnmálastéttin ætlar sér ekki að gera upp hrunið. Hún ætlar að reyna að halda áfram í óbreyttri mynd, eins og ekkert hafi í skorist, og af minni hálfu er ekki hægt að horfa upp á slíkt. Ég hef lengi sagt að það taki a.m.k. tvennar eða þrennar kosningar að gera upp hrunið og koma þeim sem áttu sök á því og þeirri hugmyndafræði sem átti sök á því frá völdum. Því fyrr sem það gerist, því betra. Annars verður aldrei hægt að byrja upp á nýtt. Þar sem þessi ríkisstjórn hefur algjörlega brugðist í því máli og þar sem hún mun ekki gæta hagsmuna þjóðarinnar í Icesave-málinu með sannfærandi hætti — hún mun ekki laga alvarlega skuldastöðu heimilanna, hún mun ekki efla atvinnulífið, á það hefur þegar reynt með frumvörpum, hún mun ekki gera upp stjórnmálalega ábyrgð á hruninu — styð ég það að ríkisstjórnin fari frá og að boðað verði til kosninga. Ég tel að hún verði til meira ógagns en gagns næstu vikur, mánuði og ár.

Hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar hins vegar tel ég hann engu betri en núverandi meiri hluta, og jafnvel verri ef eitthvað er. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórntækur og munu leiða samfélagið aftur til glötunar undir núverandi forustu og með núverandi þingliði utan örfárra þingmanna sem skynja stöðuna rétt. Ég treysti hins vegar þjóðinni til að velja rétt í næstu kosningum og hún mun ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda í stað núverandi stjórnarflokka. Hún verður heldur ekki hrædd við að kjósa nýtt fólk og ný framboð sem koma munu fram og staðfesta það vonandi endanlega að tími fjórflokksins sé liðinn.

Frú forseti. Sú ríkisstjórn sem verið hefur hér svo lengi og gert svo lítið þarf að fara frá. Almennir flokksmenn stjórnmálaflokkanna þurfa að fá tækifæri til að endurmeta forustufólk sitt og þingmenn sína. Almenningur í landinu þarf að fá tækifæri til að velja sér nýja fulltrúa á Alþingi og til að ákveða hvort tími núverandi stjórnmálaflokka sem verið hafa hér svo lengi og gert svo lítið sé liðinn.

Ég styð það að því fyrr sem slíkt gerist, því betra sé það fyrir alla landsmenn. Ég styð það að þessi ríkisstjórn fari frá og að þessi vantrauststillaga verði samþykkt. Og ég styð það að hér verði kosningar sem fyrst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)