139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil að gefnu tilefni, ekki síst í ljósi orða síðasta ræðumanns, taka það skýrt fram að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa að þeirri tillögu sem borin er uppi. Það er ástæðulaust að reyna að persónugera þann málflutning sem hér hefur verið rakinn við formann Sjálfstæðisflokksins. Það er ómaklegt og það er ómálefnalegt.

Það eru gríðarleg viðfangsefni á sviði efnahagsmála sem bíða úrlausnar. Glíma við þau kallar á styrka og samhenta ríkisstjórn og Alþingi sem nýtur meira trausts en fúin spýta. Það er ákall úti í þjóðfélaginu eftir því að einstaklingar fái tækifæri til að bjarga sér á eigin forsendum. Þrátt fyrir góð áform hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar er enn sterkt ákall eftir því að öryggisnetið sé styrkt fyrir þá sem minna mega sín. Það er ákall eftir því að Alþingi gefi fólki og fyrirtækjum færi á að skapa. Við því hefur stjórnin brugðist með því að hækka skatta. Það er kallað eftir Alþingi sem þjóðin getur treyst. Það er ákall eftir því að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna leggi upp laupana og standi ekki í vegi fyrir því að þjóðin geti unnið sig til betri lífskjara. Það liggur hins vegar fyrir að ríkisstjórnin virðist líta á kjósendur sem ógn. Í því sambandi virðast ríkisstjórnarflokkarnir hafa jafnlítinn áhuga á fundi við almenna kjósendur í þessu landi og Rauðhetta að verða á vegi úlfsins. Munurinn á ríkisstjórninni og Rauðhettu er aftur á móti sá að Rauðhettu þótti vænt um ömmu sína. Hún var hjálparþurfi, sú gamla, líkt og almenningur á Íslandi í dag. Stúlkan fór því til hennar þrátt fyrir að hún vissi af úlfinum á ferli í skóginum. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar hangið heima, samið og selt ömmuna, allt til að halda völdum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom til valda vegna búsáhaldabyltingarinnar. Þá var ríkisstjórn Geirs H. Haardes gerð að táknmynd óvinar almennings í landinu. Þegar sem mest gekk á þurftu þingmenn lögreglufylgd inn um bakdyr þingsins og þá voru dagar þeirrar ríkisstjórnar taldir.

Sagan endurtekur sig. Ekki er ýkja langt síðan þingmenn urðu að forða sér á hlaupum milli Dómkirkjunnar og Alþingishússins. Þá þótti ýmsum gott að hafa bakdyr á þessu húsi.

Sambærileg óánægja kraumar enn undir þótt ekki hafi hún brotist fram með sama hætti síðan. Afstaða þjóðarinnar til ríkisstjórnarinnar og Alþingis birtist okkur sem í salnum sitjum í skoðanakönnunum sem vissulega margir taka lítið mark á. Um síðustu mælingu þjóðarinnar á frammistöðu þingsins þarf þó ekki að deila. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um síðustu helgi var niðurstaðan afdráttarlaus: Falleinkunn. Í mínum huga varð ákveðinn vendipunktur í samskiptum þings og þjóðar um síðustu helgi sem kallar á að kjósendum í landinu verði gefinn kostur á að endurnýja trúnaðarsamband sitt við kjörna fulltrúa sína á Alþingi.

Ég sagði áðan að sagan endurtæki sig. Nú er svo komið fyrir þessari ríkisstjórn að hún er smátt og smátt að missa stuðning sinna eigin manna. Það hefur gerst áður. Reynt er með öllum tiltækum ráðum að berja í brestina og jafnvel gengið svo langt að halda því fram að hver þingmaður sem yfirgefur stjórnarfleyið beri vott um aukinn styrk stjórnarsamstarfsins. Nú síðast gerðist það þegar tveimur þingmönnum Vinstri grænna þótti mælirinn fullur og neituðu að láta meðhöndla sig lengur sem svokallaða lögafgreiðslumenn fyrir ríkisstjórnina. Þá ber svo við að sjálfur forsætisráðherrann hefur á síðustu dögum viðurkennt veika stöðu stjórnar sinnar og upplýsti alþjóð um að hafin væri leit að þingmönnum í öðrum flokkum til að styrkja stjórnarsamstarfið.

Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram vantrauststillögu þá sem hér er til umræðu fagnaði forsætisráðherra innilega þar sem þá loksins gæfist henni færi á að smala köttum án þess að hóta stjórnarslitum sjálf. Viðbrögð forustumanna ríkisstjórnarinnar við gagnrýni á framgöngu hennar, hvort heldur úr eigin röðum eða frá almenningi, bera vott um mikinn ótta í röðum stjórnarliða við kosningar. Sá ótti er vel skiljanlegur en alls ekki ásættanlegur.

Í næstu kosningum verður að sjálfsögðu spurt um fjölmörg dæmi um óvönduð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og hvernig hún hefur ítrekað brugðist loforðum sínum og vikið frá stefnu stjórnarflokkanna beggja í þeirra stærstu málum. Er nema von að spurt sé: Hver er munurinn á þessari ríkisstjórn og þeirri sem hrópuð var niður við upphaf árs 2009? Vill hin norræna velferðarstjórn láta kjósa aftur um skjaldborgina um heimilin? Mun hún lofa við næstu kosningar að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja eftir kosningahelgina eða mun innganga Íslands í Evrópusambandið enn og aftur verða sett á oddinn?

Ástæða hins almenna vantrausts á stjórnmál landsins um þessar mundir er ekki síst til komin vegna framgöngu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna við að standa við þau fyrirheit sem þessir flokkar gáfu kjósendum sínum í aðdraganda kosninganna í apríl árið 2009. Tökum dæmi um kosningaloforð Vinstri grænna fyrir þessar kosningar. Með leyfi forseta, vitna ég beint til loforðalistans. Um velferðarmál sagði að það væru atvinnumálin, með beinni tilvitnun í kosningaloforðin:

„Því má aldrei gleyma að eitt stærsta atvinnumálið nú felst í því að varðveita störf sem þegar eru til í velferðar- og menntakerfinu. Þannig komum við einnig í veg fyrir stórfellda fjölgun þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur og fá þannig hvort sem er greiðslur frá ríkinu, þótt með öðrum hætti sé.“

Það átti að skapa 500 störf — 500 störf — með endurskipulagningu í heilbrigðiskerfinu og vegna fjölgunar aldraðra. Hvernig átti að gera það? Jú, t.d. með aukinni áherslu á mannaflafrek störf í heilbrigðiskerfinu, svo sem heimaþjónustu, vinnu við rafræna sjúkraskrá o.s.frv. Það þekkja allir stöðuna í heilbrigðismálum og þá umræðu sem upp kom í tengslum við fjárlög þessa árs. Það var þó ekki allt. Það átti að skapa 2.000 ný heilsársstörf hjá hinu opinbera. Við heyrðum hvernig fyrrverandi stjórnarliði, hv. þm. Atli Gíslason, lýsti veruleikanum, hvernig það kosningaloforð hefur gengið eftir. Ef við tökum dæmi af Samfylkingunni var mikilvægasta verkefnið að hennar mati við núverandi aðstæður að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna. Markmiðið var að tryggja að engin fjölskylda byggi við fátækt. Það er ekki furða þótt vonbrigði, vantraust og óánægja almennings komi fram í því ljósi að ekkert, ekki eitt einasta af þeim fögru fyrirheitum sem stjórnmálamenn sem nú sitja í meiri hluta á Alþingi gáfu kjósendum í því ástandi sem var vorið 2009. Hef ég þó ekki tekið stærstu málin sem t.d. fólk upp til hópa sem kaus Vinstri græna lítur á sem stórsvik við atkvæði sitt og stuðning.

Vil ég þá líka, í tengslum við þau loforð sem gerð voru að umtalsefni, benda á að atvinnuleysi er í sögulegu hámarki hér á landi. Það er ekkert sem bendir til þess, því miður, að úr því dragi að óbreyttri stjórnarstefnu.

Svo undarlegt sem það er nú, ekki síst í ljósi orða forsætisráðherra áðan sem hefur hvað lengstu þingreynsluna í þessum sal, virtist hæstv. forsætisráðherra gjörsamlega vera búin að gleyma því að Samfylkingin hefur nú setið í ríkisstjórn samfleytt í fjögur ár og enn talar hæstv. forsætisráðherra eins og hún hafi hvergi komið nálægt málum. (Gripið fram í.) Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn Íslands í fjögur ár og enn er allt öðrum að kenna.

Það er augljóst öllum öðrum en forustumönnum þessarar ríkisstjórnar að fólkið í landinu telur ríkisstjórnina ekki ráða við þau verkefni sem þau voru kosin og kjörin til að sinna.

Forsætisráðherra landsins lét þau orð falla um síðustu helgi að lýðræðislegur réttur Íslendinga til að kjósa sér fulltrúa á Alþingi væri skelfileg tilhugsun. Jafnframt hefur ráðherrann margítrekað sagt að kosningar mundu leiða til upplausnar í þjóðfélaginu. Þarf frekari vitnisburð um það upplausnarástand sem ríkir í stjórnmálum landsins þegar forsætisráðherra þjóðarinnar opinberar með þessum hætti vantraust sitt á eigin þjóð? Og eftir höfðinu dansa limirnir.

Virðingarleysi stjórnvalda fyrir lögum og rétti hefur ýtt undir óeiningu og raskað nauðsynlegri reglufestu í þjóðfélaginu. Nægir í því sambandi að nefna viðbrögð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra við dómum og úrskurðum sem fallið hafa í Hæstarétti og kærunefndum um hin ýmsu álitaefni. Þar er pólitískum áherslum og hentistefnu skipað til öndvegis, en lögum og reglu vísað á dyr.

Sú ríkisstjórn sem nú á að stýra landinu í gegnum þrengingar sem á þjóðinni dynja hefur í tvígang verið dæmd af verkum sínum af hinni sömu þjóð. Hún er ríkisstjórn brostinna vona og þrotin að kröftum. Það er óþolandi þegar almenningur í landinu hefur misst trú á fulltrúa sína og hefur fullgilda ástæðu til að draga í efa getu þeirra til nauðsynlegra verka. Ef ekki verður við því brugðist eru allar grundvallarreglur fulltrúalýðræðisins að engu hafðar til enn meira tjóns fyrir þjóðina alla. Þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn var vendipunktur í samskiptum þings og þjóðar. Þar kvað þjóðin upp dóm um störf ríkisstjórnar og Alþingis. Alþingi er rúið trausti og forustumenn stjórnmálaaflanna í landinu verða að taka höndum saman og viðurkenna þá staðreynd, rjúfa þing og boða til kosninga sem fyrst. Það verður að stokka upp spilin og gefa á ný. Með þeim eina hætti að endurnýja það umboð sem Alþingi fékk frá þjóðinni í síðustu kosningum er unnt að brúa á ný þá gjá sem myndast hefur milli þings og þjóðar. Forsenda þess að unnt sé að hefjast handa hiklaust og ákveðið er að kosið verði að nýju til Alþingis.

Það getur ekki verið skelfileg tilhugsun nema hjá þeim sem þrotnir eru að kröftum til átaka við þau úrlausnarefni sem við er að glíma.