139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í umræðu sem þessari er eðlilegt að ríkisstjórnin og meiri hlutinn á bak við hana tíni til það sem gert hefur verið og ágætlega til tekist á umliðnum missirum og að stjórnarandstaðan reyni að draga fram það sem aflaga hefur farið eða ekki gengið nógu vel. Það stendur upp úr og blasir við að náðst hefur ágætur árangur í ríkisfjármálum, forgangsraðað hefur verið til að leitast við að verja þá sem verst eru settir, en kaupmáttur þeirra 10% sem verst eru sett hefur verið skertur um 6,6% á sama tíma og kaupmáttur þeirra 10% sem hæst hafa launin hefur skerst um 28%. Yfirlit yfir árangurinn og verkin er fróðlegt og gagnlegt og nauðsynlegt nú á miðju kjörtímabili og sýnir okkur hvað hefur áunnist þó að margt sé ógert enn.

Við getum tínt margt til. Eignarhald á auðlindum, þar erum við langt komin með að tryggja eignarhald þjóðarinnar á öllum auðlindum sínum og sjálfbæra nýtingu þeirra. Eitt af grundvallaratriðum endurreisnarinnar, og leiðin út úr efnahagsþokunni, er rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda þar sem því er raðað með málefnalegum og skynsamlegum hætti hvar nauðsynlegt og réttlætanlegt sé gagnvart náttúrunni að virkja og hvað skuli vernda og taka út fyrir ramma nýtingar. Þetta er mjög mikilvæg vinna sem er langt komin eins og við sjáum í frumvarpi sem hefur verið afgreitt úr iðnaðarnefnd, og hillir undir lokin á því. Þetta er einn af grundvöllum endurreisnarinnar og má telja sem eitt af því sem hefur áunnist til að tryggja vöxt og stöðugleika til framtíðar.

Eitt af stærstu verkefnum og ákvörðunum þessa þings, sem var kosið fyrir rétt liðlega tveimur árum, sneri að umsókn um aðild að Evrópusambandinu eins og hæstv. innanríkisráðherra kom inn á hér áðan. Þar er á ferðinni vel heppnuð tilraun til að leiða eitt mikilvægasta málefni samtímans til lykta. Það var gert með lýðræðislegum hætti í ágætlega heppnaðri tilraun til að draga það upp úr því ómálefnalega svaði sem hin pólitíska umræða hér á Alþingi oftast og einatt er. Þar er á ferðinni lýðræðislegt ferli þar sem þingmenn kusu óbundnir af flokkum og flokkslínum og þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum nema Hreyfingunni kusu með því að Ísland skyldi sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst því yfir í skoðanakönnunum að hann vilji að það lýðræðislega ferli gangi á enda. Það sé gert út um þetta mikla álitamál. Auðvitað er um að ræða mjög umdeilt mál og menn blanda miskunnarlaust inn í þjóðrembuskrumi hvers konar með spádómum um að Ísland sé að tapa fullveldi og yfirráðum yfir auðlindum sínum þegar hið öndverða er að sjálfsögðu staðreyndin þar sem Ísland er að leita leiða til að endurheimta efnahagslegt fullveldi sitt og byggja upp og búa til farveg fyrir langtímastöðugleika og endurheimt á góðri stöðu í efnahagsmálum þar sem við erum ekki fangar hafta og verðtrygginga heldur aðilar að stöðugum gjaldmiðli á lágum vöxtum þar sem verðtryggingar er ekki þörf.

Þetta er eitt mikilvægasta verkefni sem Alþingi og þessi ríkisstjórn hefur ráðist í. Það var vel að því staðið strax á vordögum ársins 2009 og Alþingi leiddi það til lykta, í júlí 2009, eins og ég lýsti hér áðan, á þann veg að þingmenn kusu eftir eigin sannfæringu þvert á flokka. Þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum standa á bak við umsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Fram undan er mikil umræða um kosti og galla aðildar. Þegar samningurinn kemur heim munum við sjá hvort aðild sé sá fýsilegi kostur sem ég tel að hún sé svo sannarlega. Þar munum við sjá hvernig hagsmunum landbúnaðar, sjávarútvegs, auðlindayfirráða og aðgengi Íslands að myntkerfi evrusvæðisins verður háttað í þeim samningum sem standa yfir. Utanríkismálanefnd Alþingis fær reglulega yfirlit frá fulltrúum úr samninganefndunum hvernig gangi fram. Má reikna með því að eftir eitt til tvö ár gangi þjóðin til atkvæða um það hvort við eigum að gerast aðilar að Evrópusambandinu eða ekki.

Umræðuna hefur að sjálfsögðu verið reynt að afvegaleiða yfir í blekkingar um að um sé að ræða aðlögunarferli en ekki aðildarumsókn en þjóðin hefur ekki látið afvegaleiða sig í þeirri umræðu. Eins og ég nefndi áðan vill mikill meiri hluti Íslendinga að þessu ferli ljúki og að kjósendur, fólkið, þjóðin, fái að greiða um það atkvæði sjálfir, eftir upplýsta og vonandi málefnalega umræðu, hvort við eigum að ganga inn og hverjir kostir og gallar þess séu.

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er eitt af mikilvægustu verkefnum sem þetta þing og þessi stjórn hefur ráðist í frá kosningunum 2009 og er eitt af því sem liggur því til grundvallar að við náum að byggja upp forsendu fyrir stöðugleika og langvarandi stöðugleika í gengis- og gjaldmiðilsmálum. Sú staða sem við tókum okkur fyrir 20 árum, að vera utan evrusvæðisins í gegnum EES-samninginn, reyndist blekking og þjóðarlygi sem var dýrkeypt. Nú höfum (Forseti hringir.) við tækifæri til að ljúka þessu máli. Ríkisstjórnin, og meiri hluti þingsins, hefur staðið vörð um það ferli og mun gera (Forseti hringir.) áfram.