139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Góðir tilheyrendur. Sjálfstæðisflokkurinn vill kosningar, Sjálfstæðisflokkurinn vill ríkisstjórnina burt. Er það vegna þess að sá flokkur sé færari um það en aðrir að dæma um hag þjóðarinnar eða er það vegna innanmeina flokksins og þarfar hans fyrir innri endurreisn og samstöðu? Snýst tillagan um að sameina þjóð eða sameina flokkinn, Flokkinn með stórum staf?

Það er áhugavert að á þessum degi er vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins ekki nefnd á forsíðu málgagnsins sjálfs, Morgunblaðsins, vandinn og innanmeinin rista greinilega djúpt. Formaðurinn fékk hugmynd til að reisa sjálfan sig og reisa flokkinn. Gott og vel, þá leggjum við hin önnur verk til hliðar stundarkorn og ræðum stöðu ríkisstjórnarinnar, þá tilveru sem hún tók við, þau risavöxnu verkefni sem við blöstu eftir hrunið og hvernig hefur tekist til.

Verkefnin hafa verið miklu flóknari og meira krefjandi en nokkur ríkisstjórn landsins hefur séð. Við höfum einhent okkur í þessi verkefni, við höfum unnið meira á stuttum tíma en dæmi eru um áður og við erum í miðjum klíðum. Upplausnin og hrunið hafa kallað á tækifæri og nýja hugsun en líka krampakennd viðbrögð þeirra sem höfðu völd, hafa haft völd árum saman í landinu. Enginn vill vera sviptur völdum sem hann hefur og finnst hann vera réttkjörinn og jafnvel réttborinn til. Andstreymið sem uppbyggingin hefur búið við stafar ekki einungis af umfangi verkefnisins og öllum ytri kringumstæðum heldur ekki síður af viðnámi og andspyrnu þeirra sem völdin hafa, hafa haft þau og finnst að þau eigi að hafa þau.

Forseti. Ræðum valkostina, hvað væri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar búin að gera til að reyna að reisa samfélagið úr rústum eigin stefnu? Veltum því fyrir okkur. Slík ríkisstjórn væri sennilega búin að leggja á sjúklingaskatta þannig að allir þeir sem eru inni á heilbrigðisstofnunum þyrftu að borga fyrir dvöl sína. Hún væri fyrir löngu búin að heimila stórfellda hækkun skólagjalda, hún hefði stöðvað endurbætur á dómstólum og Stjórnarráðinu og ekki gengið fram af krafti í að gera hrunið upp með rannsóknum og eftirfylgni. Í stað þess að hækka skatta á þá efnameiri og aðhalds gagnvart ofurlaunum væri hún örugglega búin að stórauka gjaldtöku vegna opinberrar þjónustu vegna þess að einhvers staðar þurfa peningarnir að koma. Hún væri væntanlega búin að framlengja kvótakerfið óbreytt til 35 ára og hún hefði ekki opnað fyrir strandveiðar.

Væri hún með aðrar tillögur um úrbætur í atvinnumálum en útsölu á auðlindum og álverið í Helguvík? Ég spyr. Forseti. Ekkert bendir til annars en að ríkisstjórnin sem nú situr geti setið áfram og enginn vafi leikur á að hún á ærið erindi. Hún er að koma alls konar mikilvægum málum vel á veg og ég nefni örfá.

Austurríska leiðin gegn ofbeldi á heimilum er nú til afgreiðslu í þinginu, bann við kaupum á vændi hefur verið gert að lögum og því þarf að fylgja eftir. Ríkið tekur þátt í að byggja og efla almenningssamgöngur og dregið er úr losun gróðurhúsalofttegunda með stefnumótun og breytingum á skattkerfi. Framfærslugrunnur lánasjóðsins hefur verið hækkaður og ábyrgðarmannakerfið afnumið. Í fjármálaráðuneytinu hafa verið unnin þrekvirki með öflugum stuðningi duglegra þingmanna; þrepaskattkerfi, fjármögnun allra lána næstu árin, minni verðbólga og minna atvinnuleysi en áður var spáð. (Gripið fram í.) Vatnatilskipun ESB er orðin að lögum og mælt verður fyrir Árósasamningum um aukna aðkomu almennings að umhverfismálum á næstu dögum. Heildarendurskoðun náttúruverndarlaga stendur yfir og Langisjór og Eldgjá hafa verið friðlýst.

Fjöldamörg önnur mál væri hægt að nefna enda hafa 250 lagafrumvörp orðið að lögum og mér er til efs að nokkur ríkisstjórn hafi komið svo miklu í verk á jafnskömmum tíma, að ég tali nú ekki um undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja í íslensku samfélagi.

Æðasláttur samfélagsins er enn þá órólegur og umræðan oft og einatt nærð af vonleysi og neikvæðni. Við verðum vegna fólksins í landinu að horfa fram á veginn og gæta að því að við erum ótrúlega heppin þjóð sem býr við endalaus tækifæri, óendanleg tækifæri til að búa okkur sjálfum og framtíðarkynslóðum jákvætt og gott umhverfi í sátt við umhverfi og samfélag.

Forseti. Góðir Íslendingar. Á eftir kemur í ljós hverjir styðja vantrauststillögu flokksins sem treystir ekki einu sinni sjálfum sér. Ætlar Framsóknarflokkurinn að halda áfram að vera pólitískt uppfyllingarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn eins og var hlutskipti hans í tólf ár? (Gripið fram í.) Mikið verk er að vinna og við erum tilbúin að halda áfram á grundvelli kvenfrelsis, félagshyggju og grænnar jafnaðarstefnu. Leið sjálfbærrar þróunar er leiðin út úr kreppunni og felur í sér hugsjónina um félagslegt réttlæti og jöfnuð. Þannig höfum við unnið og þannig munum við halda áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)