139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að síðasti ræðumaður stal dálítið frá mér orðinu hér og ef ég hökti af stað er það vegna þess að mér þóttu það mikil tíðindi sem komu fram hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni þar sem hann tilkynnti að hann væri ekki lengur stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar. Það segir mér að þessi vantrauststillaga sem við sjálfstæðismenn lögðum fram í gær sé tímabær. Og hún er rétt vegna þess að það sem er að gerast hér og í stjórnarliðinu er klárlega það sem er að gerast úti í þjóðfélaginu. Þjóðin hefur sagt við þessa ríkisstjórn: Hingað og ekki lengra. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði hér áðan að honum þætti það ekki trúverðugt að það væri forusta og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sem legði þessa tillögu fram í ljósi síðustu helgar og atkvæðagreiðslunnar sem þá fór fram. Því verð ég algjörlega að mótmæla.

Ein af ástæðum þess að við ákváðum að leggja þessa tillögu fram er jafnframt úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn sem voru í hróplegri andstöðu við úrslit atkvæðagreiðslunnar hér um Icesave-samningana á sínum tíma þar sem 44 þingmenn, þar á meðal sú sem hér stendur, greiddu atkvæði með samningum um Icesave. Auðvitað eigum við að taka mark á því, auðvitað eigum við þingmenn að horfa til þess að þarna var ósamræmi milli ákvarðana á Alþingi og dóms þjóðarinnar. Það er ein ástæða þess að við sjálfstæðismenn leggjum til að þing verði rofið og boðað til kosninga þannig að við, þingið, þingmenn, getum sótt okkur nýtt umboð, talað við þjóðina og leyft þjóðinni að hafa skoðun á því hvert beri að stefna með íslenska þjóð. Ég veit að íslensk þjóð vill ekki stefna þangað sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er að fara með okkur.

Mér varð nefnilega ljóst þegar ég hlustaði á hæstv. forsætisráðherra áðan að við Íslendingar stöndum frammi fyrir stóru vandamáli. Við höfum forsætisráðherra sem er ekki í neinum tengslum við íslenska þjóð. Ræða hennar var kúnstugt sambland af sjálfsblekkingu og sjálfshóli sem mér þótti mjög ósmekklegt, ásamt furðulegri söguskoðun þar sem hæstv. forsætisráðherra var algjörlega fyrirmunað að rifja upp að einhvern tíma hefði hún átt sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, og m.a.s. árið 2007 þegar hrunið byrjaði.

Í stað þess að horfa til framtíðar og veita íslensku þjóðinni þá von og þá trú á framtíðina sem íslenska þjóðin kallar eftir voru þau skötuhjú, hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra, pikkföst í fortíðinni, en gátu eina ferðina enn sameinast í hatrinu á Sjálfstæðisflokknum og í því að rifja upp hrunið. Það var líka nokkuð merkilegt að hvorugt þeirra sem þó mærðu bæði hagspá danska hagfræðingsins Lars Christensens nefndi einu orði þá hvatningu hans til íslensku þjóðarinnar að hætta að þrátta um fortíðina og einbeita sér að framtíðinni. Virtust þau hafa nokkrar áhyggjur af því að sá hagfræðingur spáði hér 10% viðvarandi langtímaatvinnuleysi ef ekkert yrði að gert? Það var greinilega aukaatriði.

Virðulegi forseti. Af hverju þarf þessi ríkisstjórn að fara frá? Ríkisstjórnin er gjörsamlega rúin trausti og óstarfhæf vegna innbyrðis átaka og ágreinings. Öll hennar orka fer í þau átök, þjóðin stendur frammi fyrir þvílíkum áskorunum að það er algjörlega óboðlegt að það sé einungis ríkisstjórn að nafninu til hér við völd. Því verður að boða til kosninga hið fyrsta.

Af hverju þarf þessi ríkisstjórn að fara frá núna? Vegna þess að okkur er einfaldlega nóg boðið og þolinmæði okkar er á þrotum. Ríkisstjórninni hefur mistekist að koma atvinnulífinu í gang, beinlínis gengið gegn því í mörgum tilvikum. Hæstv. ráðherrar hafa verið dæmir fyrir lögbrot, umhverfisráðherra í Hæstarétti og hæstv. forsætisráðherra hjá kærunefnd jafnréttismála. Almennar kosningar hafa verið ógiltar og niðurstaða Hæstaréttar sniðgengin. Listinn er miklu lengri. En forsætisráðherra talaði ekki um það í sinni ræðu, hún talaði um fortíðina.

Hún vogaði sér líka að tala um að draga lærdóm af rannsóknarskýrslunni. Ég held m.a.s. að höfundar hennar hefðu ekki haft hugmyndaflug til að ræða það sérstaklega að hæstv. ráðherrum bæri að hlíta dómum og úrskurðum.

Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum þann 1. febrúar 2009 voru uppi stórar yfirlýsingar um verkstjórn, um skjaldborg, lýðræði, gagnsæi, ný vinnubrögð, um vinnu og velferð. Einnig var mikið talað um samráð, jafnrétti og norrænar fyrirmyndir. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum 1. febrúar 2009 átti allt að breytast og nýtt Ísland var í uppsiglingu. En í dag, 13. apríl 2011, slær Morgunblaðið því upp á forsíðu að atvinnuleysið sé orðið eins og í kreppunni miklu 1930. Það er ekki það nýja Ísland sem þjóðin bjóst við og ekki það nýja Ísland sem íslenska þjóðin á nokkurn tímann að sætta sig við.

Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum þann 1. febrúar 2009 voru 12.407 landsmenn án atvinnu. Þeir eru núna, í lok febrúar 2011, 14.873. Það er gríðarlegur árangur, eða þannig. Og í dag, 13. apríl 2011, er skjaldborgin loks fundin. Barátta verkstjórans hefur sjaldan verið eins kröftug og nú þegar slá þarf skjaldborg um ráðherrastólana. Öll skúmaskot í þinghúsinu hafa verið nýtt til að leggja á ráðin um hvað hver fær fyrir að styðja ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslunni í kvöld. Sumt er þegar komið í ljós. Það er ljóst að Samfylkingin ætlar að halda ESB-hraðlestinni áfram, það má dæma orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og draga þá ályktun af ákvörðun hans. Spurningin er: Fær framkvæmda- og atvinnulífsarmurinn í Samfylkingunni eitthvað eða verða þeir stjórnarþingmenn sem haldið hafa íslensku atvinnulífi í gíslingu ofan á? Þetta er efni í sápuóperu, svo tragíkómískt sem það hljómar, og þetta líkist æ meira sápuóperu því að þær eru þannig að áhorfandinn getur sleppt úr mörgum þáttum af sápunni en samt komist inn í söguþráðinn á augabragði aftur þar sem alltaf er verið að fjalla um það sama.

Það gengur kannski í tilbúinni sjónvarpsveröld, en íslenska þjóðin er algjörlega búin að fá nóg af því að komast ekkert áfram. Þess vegna þarf ríkisstjórnin að fara frá og kosningar að verða hér sem allra fyrst.

Þegar ríkisstjórnin fór af stað voru margir boltar settir á loft en hún er ófær um að gera nema eitt í einu. Ég þarf ekki að tína til öll þau verk sem ríkisstjórninni hefur ekki tekist að vinna, öll þau mál sem hún hefur ekki náð saman um. Það er freistandi að benda á það sem stjórnarflokkarnir geta helst sameinast um, formbreytingar á Stjórnarráðinu og tilfærslu verkefna á milli ráðuneyta og stofnana og, jú, að koma á fót endalausum nefndum og stýrihópum og tengslahópum og endurskoðunarnefndum og eftirlitsskoðunarstýritengslahópum, og hvað þetta allt saman heitir.

Ég ætla ekki að ræða um það. Ég ætla að ræða um stóra bleika fílinn í stofunni á stjórnarheimilinu, ESB-fílinn. Stærri gerast fílarnir varla. Árum saman var reynt að telja þjóðinni trú um að Ísland yrði að hrekjast inn í ESB vegna þess að EES-samningurinn dygði ekki og það væri sífellt að fjara undan honum. En það var plat. Svo er sótt um aðild sumarið 2009 og umsóknin ein átti að snúa hjólum í þjóðarbúskapnum og stuðla að endurreisn þjóðarhags. Það var annað plat. Mesta platið felst þó í þeim rauða þræði í málflutningnum að það þurfi að semja um aðild til að leiða í ljós hvað stæði í aðildarsamningi. Að kíkja í pakkann, kalla gárungarnir þessa pólitík. Ástæða þess að svona málflutningi er haldið uppi er það grundvallaratriði að Ísland á yfir höfuð ekkert erindi í ESB. Engir stórir eða brýnir hagsmunir þjóðarinnar kalla á aðild. Þetta veit íslenska þjóðin. Aðild að evrunni er veifað og kallað lykilatriði í endurreisn Íslands, hefði jafnvel komið í veg fyrir hrunið er sagt, a.m.k. minnkað skellinn. Þetta eru falsrök eins og Grikkir, Írar og Portúgalar geta best dæmt um.

Jafnvel við hagfelldustu þróun mála, séð frá bæjardyrum Samfylkingarinnar, tæki það Ísland mörg ár að komast í evruna og þar með hefur evruaðild augljóslega ekkert með endurreisn Íslands að gera. Það þarf ekki aðildarsamning til að vita það og reyndar mundi ekkert sem skiptir máli um evruaðild standa í aðildarsamningi, það yrði ekki ein evra í pakkanum.

Virðulegur forseti. Það þarf heldur engan aðildarsamning til að komast að því að eftir aðild ættu Íslendingar ekki lengur síðasta orðið um Íslandsmið og sjávarútveg í landinu. Flóknara er það ekki hvað sem tímabundnum undanþágum kann að líða. Og það þarf engan aðildarsamning til að komast að því að íslenskur landbúnaður muni eiga erfitt uppdráttar í Evrópusambandinu. Það þarf heldur engan aðildarsamning til að komast að því að Íslendingar mundu greiða miklu meira í sjóði ESB, svo næmi mörgum milljörðum á ári, en þeir fengju til baka úr þeim.

Þessi umsókn er í skötulíki og kostar þar að auki skattgreiðendur stórfé. Það er hvorki meiri hluti fyrir aðild meðal þjóðarinnar samkvæmt fjölmörgum skoðanakönnunum né hér á Alþingi, leyfi ég mér að fullyrða, langt því frá. Þetta er mál eins flokks, mál Samfylkingarinnar. En þetta er líka mál Vinstri grænna. Með því að greiða atkvæði gegn vantrausti eru þeir þingmenn sem í hjarta sínu og opinberlega hafa verið á móti stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum að greiða atkvæði með inngöngu Íslands í ESB og það er það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason gat ekki gert og tilkynnti hér áðan.

Virðulegur forseti. Við þurfum nýtt Alþingi og við þurfum nýja ríkisstjórn sem lækkar skatta, sem forgangsraðar í þágu heimila og fyrirtækja, sem nýtir atvinnutækifæri, klárar að reisa álver í Helguvík, býður velkomin fyrirtæki sem vilja fjárfesta á Íslandi, hvort sem það er í flugstarfsemi, kísilverum eða gagnaverum. Þjóðin treystir hvorki ríkisstjórninni né þessu þingi til að leiða sig út úr kreppunni. Það er það sem við verðum að horfast í augu við, við verðum að vinna traust þjóðarinnar á ný og eina leiðin til þess er að efna strax til kosninga. Þess vegna hvet ég þingmenn til að styðja þessa tillögu okkar sjálfstæðismanna hér í dag. Við verðum að ná samstöðu um framtíð okkar, við þurfum að horfast í augu við þau verkefni sem verður að vinna hér landi og þjóð til hagsbóta. Við verðum að leggja aðildarumsóknina að ESB til hliðar og einbeita okkur að því að byggja okkur upp af eigin rammleik. Hér verður að koma atvinnulífinu af stað, hleypa fjárfestingu inn í landið, lækka skatta, skapa störf og vekja með þessari þjóð von um að við komumst úr þrengingunum. Skiljum við fortíðina, horfum til framtíðar, boðum til kosninga og byrjum upp á nýtt. Það er það sem þjóðin krefst og á það eigum við að hlusta.