139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:58]
Horfa

Ósk Vilhjálmsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við erfiðasta búi sem nokkur ríkisstjórn hefur tekið við, en aðeins örfáum mánuðum eftir að hún hóf störf var farið að kalla hana verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar. Ég held að varla hafi nokkur ríkisstjórn þurft að sitja undir öðrum eins stóryrðum og fullyrðingum og yfirlýsingum um svik, landráð, aumingjaskap, gunguhátt o.s.frv.

Þessi ríkisstjórn hefur mátt sitja undir nokkru sem ekki er hægt að kalla harða málefnalega gagnrýni, heldur beinlínis hatursárásir. Í þessum árásum birtast bæði örvænting og reiði. Örvænting og reiði getur verið skiljanleg en, kæri forseti, við vitum að þarna eru líka öfl að verki sem vilja engar breytingar, öfl sem núna höfða til tilfinninga og þjóðardrambs.

Mín skoðun er sú að þessi ríkisstjórn hafi staðið sig ótrúlega vel við ótrúlega erfiðar aðstæður. Allar mælingar og greiningar sýna að Íslendingum vegnar þrátt fyrir allt vel. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé alfarið ríkisstjórninni að þakka, en hún hefur tekið góðar og farsælar ákvarðanir sem hafa sannarlega hjálpað okkur á þessum mjög svo erfiðu tímum.

Þessi ríkisstjórn hefur náð fram mörgum umbótamálum og hún á eftir að ná fram afar mikilvægum umbótamálum. Ríkisstjórnin á t.d. eftir að fylgja eftir vinnu stjórnlagaráðsins, koma á meira réttlæti í fiskveiðistjórnarkerfinu og skattamálum Íslands, koma á mjög mikilvægum stjórnsýslubreytingum og síðast en ekki síst að standa vörð um náttúru Íslands. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég sé enga aðra sem geta eða vilja koma þessum málum áfram. Ég treysti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.