139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:01]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum kostulega tillögu Sjálfstæðisflokksins um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Ég segi að hún sé kostuleg því að hún er lögð fram tveimur sólarhringum eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins sór af sér í sjónvarpsviðtali að slík tillaga væri í burðarliðnum. Hún er kostuleg því að tillagan kom öðrum stjórnarandstöðuflokkum fullkomlega í opna skjöldu enda eru þeir hvergi í hópi flutningsmanna. Hún er kostuleg því að tímasetningin gefur skýrt til kynna að tillagan fjallar í raun ekki um vantraust á ríkisstjórnina heldur er hún til komin vegna þess að vantraustið á formanni Sjálfstæðisflokksins innan eigin flokks er orðið honum óbærilegt. Tillagan er því í raun yfirlýsing um vaxandi vantraust á forustu Sjálfstæðisflokksins.

Tímasetning vantrauststillögunnar er líka fráleit þegar við höfum í huga að það var sjálf forusta Sjálfstæðisflokksins sem studdi Icesave-samningana sem felldir voru á laugardaginn. Hún sagði já við samningunum. En þegar fyrrverandi formaður flokksins, Davíð Oddsson, sendi forustunni eyrnafíkju í leiðara gærdagsins kiknaði hún í hnjáliðunum og kastaði fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina nokkrum klukkutímum síðar, rétt eins og um einhvers konar taugaviðbragð væri að ræða. Þessi tillöguflutningur ber öll merki örvæntingar og óðagots. Tímasetningin er fullkomlega órökrétt og grefur undan samstöðu stjórnarandstöðunnar sem mikilvægt er að veiti ríkisstjórninni gott aðhald.

Ég heyrði formann Framsóknarflokksins miðla þeim boðskap til sinna manna um helgina að sá flokkur mætti ekki verða pólitískt uppfyllingarefni. En er það ekki einmitt það sem birtist okkur hér í dag? Er ekki einmitt verið að nota Framsóknarflokkinn sem pólitískt uppfyllingarefni í þessum grátlega farsa? Fyrir okkur sem hugsum hlýtt til stjórnarandstöðunnar er þessi málatilbúnaður sannarlega áhyggjuefni.

Virðulegi forseti. Tillaga um vantraust á ríkisstjórnina er ekkert gamanmál, sérstaklega ekki við núverandi aðstæður þegar við þurfum á öllu okkar að halda til að afstýra frekari efnahagslegum skaða tveimur árum eftir bankahrun. Þjóðin hefur talað í Icesave-málinu og þrátt fyrir góð fyrirheit í sjónvarpsumræðum á sunnudaginn, í umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna, hafa bæði forseti lýðveldisins og forustuflokkur stjórnarandstöðunnar lagt sitt af mörkum til að grafa undan viðleitni til að skapa víðtæka samstöðu þjóðarinnar um markviss viðbrögð við niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar á laugardaginn. Forsetinn réðst harkalega á aðila vinnumarkaðarins á sunnudag sem standa nú í viðkvæmum kjaraviðræðum og með vantrauststillögu sinni í dag sendir forusta Sjálfstæðisflokksins skilaboð um að í landinu sé pólitískur glundroði einmitt þegar stjórnvöld vinna nótt og dag við að sannfæra erlenda þjóðarleiðtoga, matsfyrirtæki og áhrifamenn á alþjóðavettvangi um að þessi þjóð sé fullfær um að vinna sig út úr sínum vanda — og verður sem betur fer ágætlega ágengt eins og viðbrögð Norðurlandaþjóðanna, ekki síst Svía, hafa sýnt á undanförnum sólarhringum.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og þessi makalausa tillaga gefur ríkisstjórnarflokkunum kærkomið tækifæri til að þjappa sér saman á bak við formenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa staðið af sér hvern brotsjóinn á fætur öðrum undanfarin tvö ár. Þessi ríkisstjórn, með fulltingi meiri hlutans á þingi, hefur unnið þrekvirki í ríkisfjármálum, náð fjárlagahallanum úr 216 milljörðum hrunárið niður í 36 milljarða á þessu ári. Það hefur tekist að stöðva vöxt atvinnuleysis sem nú er heldur minna en fyrir ári þó að enn sé vissulega mikið verk fyrir höndum. Kaupmáttur er tekinn að aukast á ný. Verðbólga er sú lægsta frá árinu 2004, stýrivextir þeir lægstu sem verið hafa í sögu Seðlabankans, úrvinnsla úr skuldamálum heimila og fyrirtækja gengur nú hraðar en áður, erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa ekki verið lægri frá árinu 2005. Og síðast en ekki síst hefur jöfnuður aukist hröðum skrefum í samfélaginu þar sem kjör lágtekjuhópa hafa sérstaklega verið varin. Stjórnlagaráð er tekið til við endurskoðun stjórnarskrárinnar, aðildarviðræður við ESB eru í réttum farvegi og endurskoðun fiskveiðistefnunnar er að komast á lokastig. Við þessar aðstæður þurfa allir að halda haus, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu, taka höndum saman um að lágmarka skaðann af höfnun Icesave-samninganna, hraða sem kostur er meðferð þess máls fyrir dómstólum, sannfæra samstarfsaðila okkar ytra um að við séum þjóð sem stendur við réttmætar skuldbindingar sínar. Mikilvægt er að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins nái saman um raunhæfa kjarasamninga sem færa launþegum sanngjarnar kjarabætur og atvinnurekendum svigrúm til vaxtar.

Virðulegi forseti. Nú er tími til að láta hælbítana finna hverjir stjórna í þessu landi. Það er ríkisstjórn í landinu sem hefur nú þegar unnið þrekvirki, ætlar að gera það áfram og á skilið víðtækan stuðning á þeirri vegferð að skapa forsendur fyrir nýtt blómlegt samfélag réttlætis, framfara og jafnaðar. Nú er ekki tími til að færa landsstjórnina aftur á steinaldarstig þjóðernisafturhalds. Ísland er land mikilla tækifæra og þjóðin hefur styrk til að brjótast í gegnum brimskaflinn ef við berum gæfu til að standa saman á þessum krefjandi tímum.

Því segi ég að lokum: Látum ekki niðurrifsöflin ná yfirhöndinni. Styðjum ríkisstjórnina áfram til góðra verka.