139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:06]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við var ástandið ekki björgulegt. Alls staðar voru vandamál, skuldir heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs gríðarlegar og tekjur í uppnámi. Því þurfti að taka óvinsælar ákvarðanir. Við stjórnarþingmenn vissum alltaf að þetta væri ekki vinsældakeppni heldur þyrfti að taka erfiðar ákvarðanir fyrir land og þjóð. Nú þyrfti hugrekki.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem leggur fram þessa tillögu til að verja formanninn vantrausti, hefur hins vegar ekki sýnt af sér mikið hugrekki á undanförnum árum. Ekki hefur flokkurinn verið tilbúinn til að fækka ráðuneytum og spara í yfirstjórn, ekki hefur hann viljað leggja niður stofnanir né sameina, ekki tryggja rétt neytenda gegn markaðsráðandi fyrirtækjum, ekki tilbúinn til að bregðast við fækkun kvenna í stjórnum stærri fyrirtækja, ekki tilbúinn til að afnema skattfríðindi sjómanna sem eru með tekjuhærri hópum. Þá var flokkurinn ekki tilbúinn til að leggja skatt á þá sem áttu yfir 100 millj. kr. í hreina eign — en þetta var á þeim tíma þegar ríkissjóður var rekinn með 180 milljarða tapi. Og þeir vildu einnig skattleggja séreignasparnaðinn. Það væri gaman að sjá stemninguna uppi í karphúsi ef sú hugmynd hefði orðið að veruleika.

Einu sinni reyndu þingmenn flokksins ábyrga nálgun og töldu skynsamlegast að fara samningaleiðina í Icesave-málinu. Það var vel gert. En hvað svo? Aftur skorti þá hugrekkið. Hvað varð um hryggjarstykkið í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins? Það var aðeins einn þingmaður sem þorði að standa með ákvörðun sinni, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, en hinir hurfu af vettvangi og þorðu ekki að láta á sér kræla. Ég spyr í hreinskilni: Hvað má út úr þessu lesa? Hvenær fóru þingmenn flokksins að standa með sannfæringu sinni og berjast fyrir málstaðnum? Hvernig hefði farið fyrir stjórn ríkisfjármála undir þeirra stjórn? Hvað gerist þegar þarf að taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð eða skattahækkanir? Hvar verða þingmennirnir þá?

Frú forseti. Það er mín staðfasta trú að ríkisstjórnin eigi að starfa áfram ef hún hefur erindi við landsmenn, hafi hún málefni til að berjast fyrir. Ég tel að svo sé og vil þá sérstaklega nefna þau fjögur málefni sem ég tel mikilvægust.

Í fyrsta lagi eru það atvinnumálin. Það er hlutverk ríkisstjórnar að byggja upp atvinnulífið í landinu með því að skapa því umgjörð svo að það geti vaxið og dafnað. Það á ekki að efla starfsgreinar með óhagkvæmum fjárfestingum sem skila fáum störfum. Það á ekki að ganga stöðugt lengra í nýtingu takmarkaðra auðlinda án verndaráætlunar heldur nýta þau tækifæri sem blasa við í alþjóðlegri nýsköpun sem er mannaflsfrek, aflar gjaldeyristekna og þarfnast lítils lánsfjármagns. Mikilvægasta verkefni stjórnvalda í atvinnumálum á næstu missirum er að standast þrýsting um gamaldagslausnir á núverandi vanda þjóðarinnar.

Það er ekki svo að álver, fiskiðnaður og landbúnaður muni skapa næg störf fyrir unga Íslendinga til framtíðar. Við Íslendingar getum ekki vænst þess að landsins gæði gefi af sér þann vöxt sem við þurfum til að lifa af í nútímavelferðarkerfi. Það er hugvit og nýsköpun af ýmsu tagi sem er nauðsynleg til að lífskjör á Íslandi verði sambærileg við það sem er í nágrannalöndum. Þannig þurfi að hafa þolinmæði til að skapa atvinnulíf sem skapar verðmæti byggt á hugviti fólksins sem þar starfar.

Í öðru lagi tel ég að ríkisstjórnin eigi erindi vegna aðildarviðræðna við ESB. Samfylkingin, ein flokka, hefur það á stefnuskrá sinni að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Við höfum því barist fyrir því að Ísland sæki um aðild og þjóðin fái svo að taka upplýsta ákvörðun. Eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni er það stefna Sjálfstæðisflokksins að hverfa frá aðildarviðræðunum en þar segir að Samfylkingin hafi sett endurreisn landsins í gíslingu í einstrengingslegum tilraunum sínum til að þvinga þjóðina í Evrópusambandið. Ég held áfram, frú forseti: „Aðild að ESB er í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar og aðildarferlið einungis til þess fallið að auka enn frekar á sundrungu og erfiðleika hennar.“ Ég spyr: Er Sjálfstæðisflokkurinn í alvöru að meina þetta? Er honum alvara? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki í hyggju að bjóða fram í Suðvesturkjördæmi í næstu þingkosningum?

Það er ljóst að þjóðin vill fá að taka upplýsta ákvörðun um aðild að ESB. Ef stjórnmálaflokkum er einhver alvara með því að vilja efla íslenskt atvinnulíf þá leyfa þeir þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun um aðild að ESB. Því segi ég: Ef Samfylking er ekki í forustuhlutverki í ríkisstjórn mun aðildarviðræðum verða hætt. Það er alveg ljóst af málflutningi sjálfstæðismanna.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna, frú forseti, eru breytingar á kvótakerfinu. Ég fullyrði að enginn annar flokkur en Samfylking mun geta komið á breytingum þar. Þjóðin vill sjá breytingar í þá veru að útgerðarfyrirtækin leigi kvótann til ákveðins tíma og það sem ég vil leggja mesta áherslu á er greiði fyrir það verulegt gjald í ríkissjóð, verulegt. Auðlind okkar allra, fiskurinn í sjónum, skilaði sjávarútveginum 45 milljarða gróða árið eftir hrun, 2009. Fyrir þann gríðarlega hagnað greiðir hann 3 milljarða til almennings í veiðigjald eða 1 milljarð til eigandans fyrir hverja 14 sem hann tekur í hagnað. Þessu þarf að breyta.

Að endingu, frú forseti, vil ég að sjálfsögðu nefna breytingar á stjórnarskrá landsins. Skipun stjórnlagaráðs hefði aldrei tekist með aðra flokka í ríkisstjórn en Samfylkingu og Vinstri græna. Sjálfstæðisflokk og Framsókn skortir bæði hugrekki og viljastyrk til að ráðast í raunverulegar breytingar á stjórnarskrá.

Ég hef nú rakið fjögur atriði sem við í Samfylkingunni höfum sett fram sem langtímamarkmið í stjórnmálum:

1. Langtímahugsun í atvinnuuppbyggingu þar sem stjórnmálamenn standast þrýsting um gamaldagslausnir á núverandi vanda þjóðarinnar.

2. Að þjóðin fái að taka upplýsta ákvörðun um ESB og á meðan á samningaviðræðum standi freisti þess allir að ná sem hagstæðustum samningi fyrir Ísland, allir.

3. Að ráðist verði í breytingar á kvótakerfinu þar sem tryggt sé að um leiguréttindi sé að ræða þar sem útgerðarmenn greiði milljarða í sameiginlega sjóði landsmanna.

4. Að lokið sé við nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá og þær breytingar lagðar í dóm kjósenda.

Á meðan unnið er að þessum atriðum mun Samfylking vilja leiða ríkisstjórn. Ef vikið er frá þessum grundvallaratriðum mun Samfylking ekki vilja sitja í ríkisstjórn. Við verðum ekki í ríkisstjórn nema unnið sé að því að skapa hagvexti þessa lands raunhæfan grundvöll til lengri tíma.

Frú forseti. Samfylkingin er í raun umbótaflokkur þessa lands, flokkurinn sem vill sækja fram og breyta samfélaginu til betri vegar. Samfylkingin er harður andstæðingur kyrrstöðu, ranglætis og spillingar. Hún berst fyrir frelsi einstaklingsins en um leið jöfnum tækifærum allra til að njóta lífsins gæða. Þess vegna tel ég að Samfylkingin eigi að vera í leiðandi stöðu í ríkisstjórn og þess vegna segi ég nei við þessari vantrauststillögu.