139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ríkisstjórnin er vissulega svona og svona, skulum við segja. Sumt gerir hún vel, annað gerir hún ekki vel. Sumu hef ég verið sammála, öðru er ég ekki sammála. Ég hef talið mjög mikilvægt að þegar við ræðum um störf ríkisstjórnarinnar og störf okkar tökum við skýrt með í reikninginn að það gerðist dálítið í íslensku samfélagi fyrir tveimur árum. Við lentum í mjög miklum vanda. Ég hef því talið að það að vera í stjórnmálum krefðist af öllum sem þau stunda extra mikillar sanngirni. Ekki síst í því ljósi get ég því miður ekki fundið mig í stuðningi við þessa vantrauststillögu.

Síðan finnst mér líka einkar áhugavert, og jafnvel eins konar brandari, að það skuli vera Sjálfstæðisflokkurinn sem leggur fram þessa vantrauststillögu vegna þess að ég held að það sé óhætt að segja að margir séu á því að sá flokkur hafi ekki beinlínis gert gott mót (Forseti hringir.) þegar hann stjórnaði Íslandi í 18 ár — ásamt öðrum. (Gripið fram í: … ásamt öðrum.) (Gripið fram í: Framsókn.)

Ég ætla ekki að taka þátt í þessum leikaraskap, þessum skotgrafahernaði, á þessum óvissutímum.

Ég greiði þessu ekki atkvæði.