139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:23]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég hvatti fyrr í kvöld forustumenn ríkisstjórnarinnar til að færa pólitískar fórnir til að bjarga lífi fyrstu vinstri stjórnarinnar, fórnir sem munu gera stjórnarflokkunum kleift að endurheimta traust almennings eftir tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave sem opinberuðu taktleysi forustunnar. Engra breytinga er að vænta á ríkisstjórninni og ég óttast að ef vantrauststillagan verður felld muni forusta ríkisstjórnarinnar forherðast í foringjaræðinu og framlengja í þriðja sinn samning Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins við AGS, auk þess sem þessi ríkisstjórn mun halda áfram á braut kreppudýpkandi fjárlaga ásamt því að tryggja hagsmuni bankakerfisins og fjármagnseigenda á kostnað skuldsettra heimila og fyrirtækja.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég segi því já í atkvæðagreiðslunni um vantraust þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn leggi hana fram.