139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þessar umræður í dag hafa á margan hátt verið mjög athyglisverðar. Númer eitt, númer tvö og númer þrjú vill þessi ríkisstjórn helst, þegar á hana er sótt, tala um fortíðina. Stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur kristallast í einu orði og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Ég hef ekki tölu á því hversu oft stjórnarliðar hafa nefnt þetta sameiningartákn sitt.

Svo kemur hæstv. forsætisráðherra hér og segir að engar tillögur hafi komið fram frá stjórnarandstöðunni. Heyr á endemi. Allir flokkar í stjórnarandstöðu hafa lagt fram ítarlegar tillögur, en ríkisstjórnin virðist ekki vera læs á neinar tillögur nema sínar eigin. Niðurstaðan er því sú að ríkisstjórnin þorir ekki að leggja verk sín í dóm kjósenda. Það sem verra er, hún treystir ekki sínum eigin kjósendum til að fara með atkvæði sitt. Nú liggur það fyrir.

Ég segi já.