139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:42]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé brýnt að hafa í huga við þessa atkvæðagreiðslu að við erum vonandi á rúmlega miðri leið í endurreisn eftir bankahrunið sem varð fyrir tveimur og hálfu ári. Það eru enn mörg verk óunnin, það er margt sem þarf að klára. Erindi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er brýnt og þarft, stefnan er skýr. Svo má vera að einhverjir heltist úr lestinni en við munum klára þetta verkefni. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mun klára þetta kjörtímabil og ég segi nei við þessu vantrausti vegna þess að í því felst einhver sú innantómasta hótun sem ég hef nokkurn tímann orðið vitni að í þessum þingsal. [Kliður í þingsal.]