139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

kjarasamningar og fjárfestingar í atvinnulífinu.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú standa yfir viðræður milli aðila vinnumarkaðarins og þeir funda reglulega með ríkisstjórninni vegna þeirra hugmynda sem þeir hafa um framkvæmdir á næstu árum til að drífa í gang hagvöxt.

Í gær kom í ljós að ríkisstjórnin styðst við eins manns meiri hluta á Alþingi og þarf því að vera full samstaða í ríkisstjórninni um þær áherslur í framkvæmdamálum sem lögð er áhersla á af aðilum vinnumarkaðarins. Mig langar að vitna í það sem segir á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins og haft er eftir formanni þeirra, með leyfi forseta:

„Við eigum í rauninni eftir að klára talsvert mikið gagnvart ríkisstjórninni enn þá og reiknum með því að það verði klárað fyrir hádegi. […] Við erum búin að fá ýmislegt fram í framkvæmda- og orkumálum en við þurfum að leggja lokahönd á það og fá ákveðnar tryggingar fyrir því að það gangi þá eftir eins og við höfum reiknað með.“

Það sem mig langar að bera undir hæstv. forsætisráðherra, sem stýrir nú meiri hluta á þinginu með minnsta mögulega mun, er eftirfarandi: Hvaða mál eru það sem hæstv. forsætisráðherra hefur opnað á í framkvæmda- og orkumálum við aðila vinnumarkaðarins? Ef hægt er að ræða það við aðila vinnumarkaðarins hlýtur að vera hægt að kynna það á þinginu hvaða mál það eru sem ríkisstjórn sér fyrir sér að hægt verði að ráðast í á næstu missirum. Ég kalla eftir því að fá upplýsingar um þessi helstu framkvæmda- og orkumál.

Síðan er hitt. Vegna þess sem fram kom í umræðunni í gær, um að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skilyrti stuðning sinn við ríkisstjórnina við að ekki yrði ráðist í framkvæmdir í Neðri-Þjórsá, er nauðsynlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi (Forseti hringir.) gert ráð fyrir því í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins að ráðist yrði í þá framkvæmd.