139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

kjarasamningar og fjárfestingar í atvinnulífinu.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það hefur verið stórt mál í þeim viðræðum sem fram hafa farið milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, þ.e. um fjárfestingar- og hagvaxtaráætlun sem við höfum verið að fara yfir. Við höfum sett okkur þau markmið með aðilum vinnumarkaðarins að ná fjárfestingunni úr 13% upp í a.m.k. 20% af landsframleiðslu og að atvinnuleysið á kjarasamningstímanum minnki um helming á þessum þremur árum. Ég tel góðar líkur á því að það náist.

Við erum að tala um orkuuppbyggingu, bæði á Norðausturlandi og Suðausturlandi á næstu árum í þessu prógrammi. Það er alveg ljóst að Þingeyjarsýslur koma þar mjög sterkt inn, en Landsvirkjun er þar í viðræðum við ýmsa aðila sem hafa áhuga á orkutengdri uppbyggingu á því svæði.

Varðandi Helguvík er það mál auðvitað ekki í höndum ríkisins. Málið er í farvegi milli Norðuráls og HS Orku og við skulum vona að samkomulag náist um það. En við gerum okkur vonir um að í Þingeyjarsýslum geti farið af stað orkuuppbygging eða uppbygging sem nýtir þá orkuöflun sem þar er til staðar sem gæti verið 80 milljarðar vegna framkvæmda, 50 milljarðar í orkuöflun og 50 milljarðar til viðbótar tengdir framkvæmdum. Ég held að góðar vonir séu um að samkomulag náist um þessi atriði. Ég get ekki farið ofan í einstök mál en grundvallaratriðið sem menn leggja upp með er að orkuöflun sem ráðist verður í verði út frá viðskiptalegum forsendum (Forseti hringir.) og eins að það byggi á umhverfisvænum áhrifum, þar kemur rammaáætlunin sterkt inn í.