139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

kjarasamningar og fjárfestingar í atvinnulífinu.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar maður horfir gegnum tíðina hafi kannski ekki alltaf verið sjálfgefið að öll orkuuppbygging í landinu hafi verið út frá viðskiptalegum forsendum og það hafa kannski ekki alltaf verið teknir hagkvæmustu kostirnir í því máli. En það er alveg ljóst og hv. þingmaður veit að stjórnarflokkarnir leggja mikla áherslu á rammaáætlun um vernd og nýtingu, að hún liggi fyrir áður en ráðist verður í orkuuppbyggingu, og Neðri-Þjórsá hafa aðilarnir vissulega nefnt. En við höfum sagt að það skipti máli hvernig rammaáætlunin verður úr garði gerð og hvernig hún verður frá gengin. En það er alveg ljóst að menn tala um víðtæka orkuuppbyggingu á næstu árum, og ekki bara orkuuppbyggingu heldur er margt annað sem við leggjum upp með í því, ekki síst prógramm að því er varðar ferðaþjónustuna, nýsköpunarverkefni ýmiss konar o.s.frv.