139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

staðan að lokinni Icesave-atkvæðagreiðslu.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hef áður gert athugasemdir við viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við niðurstöðunni úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave og þá sérstaklega út á við. Reyndar öll viðbrögð hæstv. forsætisráðherra bæði inn á við og út á við því að það er fylgst með viðbrögðum ráðherrans hvort sem það er í beinu viðtali við erlenda fjölmiðla eða íslenska fjölmiðla heima. En þrátt fyrir hin mjög svo óheppilegu viðbrögð hæstv. forsætisráðherra hefur þó ýmislegt verið að þróast í rétta átt. Skuldatryggingarálag Íslands hefur haldið áfram að lagast og er nú hið lægsta frá hruni. Landsvirkjun er búin að fá lán frá Landsbankanum vegna Búðarhálsvirkjunar. Allt í einu var hægt að fjármagna það verkefni sem mun vera mjög arðbært innan lands. Ég átta mig reyndar ekki á því hvers vegna það var ekki gert fyrr. Það var búið að reyna að benda á þann möguleika, en gott og vel, menn eru búnir að átta sig á þessu núna.

Þá er spurningin: Er hæstv. forsætisráðherra farin að útskýra fyrir erlendum fjölmiðlum að staðan sé nú þessi, hlutirnir séu að þróast áfram til betri vegar á Íslandi og er forsætisráðherra búin að útskýra í hverju þetta Icesave-mál liggur raunverulega, að það snúist um lagalegan rétt Íslendinga, snúist um að verja rétt almennings? Með öðrum orðum: Er hæstv. forsætisráðherra farin að tala á svipuðum nótum og birtist í leiðara Financial Times í gær undir fyrirsögninni „Íslendingar bjóða fautunum byrginn og sýna að hægt er að taka rétt almennings fram yfir rétt banka“?

Loks væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. forsætisráðherra hefur gert athugasemdir við ESA og forstöðumann þeirrar stofnunar sem er búinn að gera stofnunina í raun algerlega vanhæfa til að taka á þessu máli með alveg dæmalausum yfirlýsingum löngu áður en kom til kasta stofnunarinnar að taka málið formlega fyrir.