139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

staðan að lokinni Icesave-atkvæðagreiðslu.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeirri viðkvæmu stöðu sem við erum í gagnvart alþjóðasamfélaginu skiptir auðvitað máli hvernig allir tala í því sambandi. Við erum að bíða eftir því að fá lánshæfismat og höfum róið að því öllum árum að það verði okkur sem hagstæðast og það verði ekki lækkað með samtölum við ýmsa aðila. Ég átti samtöl við forsætisráðherrana á Norðurlöndum sem ég taldi nauðsynlegt að ræða við og síðan fjármálaráðherra einnig og Seðlabankinn hefur verið þar mikið í forsvari. Svo verðum við að sjá hvernig það gengur.

En þetta gengur líka á báða vegu. Það er heldur ekki gott fyrir alþjóðasamfélagið að hlusta á þær dómadagsspár sem ganga iðulega fram í þingsölum frá stjórnarandstöðunni um að hér sé ekkert gert, hér sé allt í kaldakoli, hér sé engin atvinnuuppbygging, hér sé enginn hagvöxtur af því að stjórnarflokkarnir geri ekki neitt. Ég get ímyndað mér að það gæti haft sín áhrif á lánshæfismat og stöðu Íslands erlendis þegar fréttir berast frá stjórnarandstöðunni um að hér sé allt í kaldakoli. Ég vil því biðja hv. þingmann líka að athuga og passa sín orð gagnvart alþjóðasamfélaginu þegar hann beinir orðum sínum að mér.

Auðvitað hef ég notað öll tækifæri sem ég hef haft þegar ég hitti kollega mína á hinum ýmsu fundum erlendis til að tala máli Íslands. Skárra væri það nú ef ég gerði það ekki. Ég held að Ísland og sjónarmið þess sem við höfum haldið fram, um að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða þessa Icesave-skuld, hafi ákveðinn stuðning í útlöndum en við vitum það líka og við höfum haldið því fram að Ísland muni engu að síður standa við skuldbindingar sínar. (Forseti hringir.) Nú stöndum við frammi fyrir því að Ísland muni ekki greiða þessar kröfur nema fyrir liggi skuldbinding, lagalegur úrskurður frá ESA um samningsbrot o.s.frv. (Forseti hringir.) En hv. þingmaður þarf ekki að óttast (Forseti hringir.) að við munum ekki gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda vel á málstað Íslands.