139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

staðan að lokinni Icesave-atkvæðagreiðslu.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að hæstv. forsætisráðherra svari spurningum með því að beina spurningum til stjórnarandstöðunnar. Þannig virðist hæstv. forsætisráðherra svara nánast öllum spurningum sem til hennar er beint.

Ég ætla ekki að verja miklum tíma í að fara yfir fáránleika þess að bera saman yfirlýsingar forsætisráðherra út á við við viðbrögð við niðurstöðu Icesave-kosninganna við gagnrýni stjórnarandstöðu á ríkisstjórn. En það væri þá gott að fá staðfestingu frá hæstv. forsætisráðherra á því að ráðherrann hafi horfið frá þeim málflutningi sem hún hóf strax eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar þess efnis að með þessu væri gríðarleg áhætta sett á Ísland, hætta væri á efnahagslegri upplausn og þar fram eftir götunum. Er ekki hæstv. forsætisráðherra farin að útskýra fyrir fólki að þetta hafi í raun verið mjög æskileg og mjög réttlát niðurstaða?