139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

uppbygging orkufreks iðnaðar.

[10:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum í tvö ár bent á vanmátt ríkisstjórnarinnar gagnvart því verkefni að koma atvinnulífinu af stað. Við höfum talað um að hér séu mikil tækifæri í orkugeiranum sem nýta beri Íslendingum öllum til hagsbóta en viðbrögðin hafa ekki verið neitt sérstök, svo vægt sé til orða tekið.

Nú brá svo við að í varnarræðu sinni í gær fyrir vantrausti á ríkisstjórnina lýsti hæstv. iðnaðarráðherra yfir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Það liggur nú fyrir, ef ég tek allra varlegustu áætlanir um uppbyggingu í orkugeiranum, að á komandi árum verður byggð hér ný Kárahnjúkavirkjun. Það verður farið í framkvæmdir sem munu skila álíka afli og Kárahnjúkavirkjun skilar.“

Með öðrum orðum boðar iðnaðarráðherra að það eigi að fara að beisla í kringum 700 megavött. Það er gríðarleg fjárfesting, fjárfesting sem gæti numið 200 milljörðum eða þaðan af meiru, og gríðarlegar framkvæmdir. Því langar mig til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Hvar á að vinna allt þetta afl? Hefur eitthvað breyst í afstöðu hæstv. umhverfisráðherra og Vinstri grænna? Á að virkja neðri hluta Þjórsár? Á að leyfa Norðlingaölduveitu? Á að virkja á Þeistareykjum? Á að virkja í Gjástykki (Forseti hringir.) eða eru menn kannski að tala um að fara inn á Torfajökulssvæðið og virkja þar?