139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[11:01]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi það hvernig hagað er undirbúningi fyrir fjárlagagerðina á næsta ári er það þannig að eins og fyrirheit voru gefin um er farinn annar hringur með hópi fólks sem fer á allar heilbrigðisstofnanir á landinu, skoðar áhrifin af þeim niðurskurði sem þegar hefur átt sér stað og metur þá með hvaða hætti menn framfylgja því sem var áætlað í fjárlögum að kæmi inn árið 2012. Ég hef gefið þá yfirlýsingu að allt verði opið í þeim málum og það skoðað. Þessi vinna er þegar hafin, viðkomandi hópur er farinn af stað og er að kynna sér málin. Þar eru í hópnum bæði fulltrúar frá ráðuneytinu og eins frá heilbrigðisstofnunum annars staðar að af landinu þannig að þar verða metnir allir þættir, bæði hvað varðar heilbrigðisþjónustu á hverjum stað, hvað er raunhæft að geta veitt og eins áhrif á staðsetningu og þá flutninga sem hv. þingmaður nefndi.

Það kemur mér á óvart ef Heilbrigðisstofnun Suðurlands tilkynnir í gegnum þingmenn niðurstöður í sambandi við rekstur. Þær hafa ekki borist inn til ráðuneytisins og mun ég kalla eftir þeim. Það hefur komið fram í svörum frá mér að þessir flutningar hafi alls ekki aukist. Það hefur ekki orðið sú breyting sem menn áttu von á. Megnið af niðurskurðinum var dregið til baka og niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu var einhvers staðar í kringum 2–3% í heildina og sem betur fer hefur tekist að verja heilbrigðiskerfið. Hitt er annað mál að það er hafinn mikill slagur um það hver eigi að fá hversu stóran hlut af kökunni. Við erum í samningaviðræðum, þ.e. Sjúkratryggingar Íslands eru í samningaviðræðum við sérgreinalækna. Þeir hafa sagt sig frá samningum og það verður auðvitað mikið mál að landa þeim samningum. Þar hafa verið kölluð til svokölluð kragasjúkrahús til að meta stöðuna og með hvaða hætti þau geta komið inn í varðandi sérgreinaþjónustu.

Brunavarnir Suðurnesja, (Forseti hringir.) ég verð að fá að svara því í seinni ræðu en skal koma þá inn á svörin hvað þær varðar.