139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[11:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er að biðja mig sem ráðherra að afhenda Brunavörnum Suðurnesja 85 millj. kr. til að mæta halla á rekstrinum. (Gripið fram í: Samning.) Samningurinn er í höndum Sjúkratrygginga Íslands og það er mikill vilji og áhugi á því að fá þar samning. Þar hafa komið fram hugmyndir um að draga Grindavík inn undir þá starfsemi og það er í skoðun í augnablikinu. Það mun þýða uppsagnir þeim megin þannig að menn verða að tryggja að þessi þjónusta sé veitt heildstætt og það hefur verið áhersluatriði hjá mér að svona mál sé einmitt leyst staðbundið og af viðkomandi stofnunum á sem hagkvæmastan og bestan hátt. Það á ekki að vera valdboð ráðherra að ákveða hver keyrir bíl hvar og milli hvaða staða. Það er sú lína sem ég lagði upp. Ég hef kallað eftir mikilli ábyrgð hjá þessum forstöðumönnum og veit að þeir eru almennt að vinna verk sitt mjög vel þannig að við skulum vona að það verði.

Varðandi tölulegar upplýsingar tek ég undir með hv. þingmanni, við erum svolítið í vandræðum með það að menn nota tölur gjarnan til að gefa afar misvísandi upplýsingar (Forseti hringir.) og það er vandamál sem við þurfum að taka á í kerfinu öllu. Hið nýja embætti (Forseti hringir.) landlæknis mun taka á því með okkur.