139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[11:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það mál sem við fjöllum um og greiðum atkvæði um er umgjörð um það hvernig við ætlum að fjalla um og höndla í þinginu með verndar- og nýtingaráætlun. Það hefur tekist vel að ná þokkalegri sátt, eða góðri sátt vil ég segja, í iðnaðarnefnd um þetta mál og ég þakka nefndarmönnum og formönnum nefndarinnar sem hafa stýrt henni undanfarið fyrir það.

Það er mikilvægt að við stöndum nú saman að þessum hluta. Vonandi gefur það tóninn um framhaldið er snýr að þessu máli því að það er mjög mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að við verðum að forgangsraða í þessum stóra málaflokki.

Frú forseti. Ég mæli því eindregið með því að þingmenn styðji þetta frumvarp og þær breytingartillögur sem því fylgja.