139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[11:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Samfylkingin aðhyllist hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og við höfum lengi barist fyrir því að rammaáætlun yrði að lögum á Íslandi. Rammaáætlun gefur okkur tæki til að meta, með heildarhagsmuni að leiðarljósi, hvaða svæði á að vernda og hvaða auðlindir á að nýta til orkuframleiðslu fyrir efnahagslegan vöxt í landinu.

Sem umhverfisverndarsinni, sem gerir sér þó grein fyrir því að orkuauðlindirnar eru mikilvægar auðlindir fyrir okkur til að skapa verðmæti, fagna ég því að hér séum við að setja löggjöf um ramma utan um þessa vinnu til að forða okkur frá eilífum þrætum um það hvaða verðmætum náttúruperlum Íslands eigi að fórna.