139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[11:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ætlum að greiða atkvæði um hér snýr að því að einfalda það kerfi sem menn hafa búið til, fella í burtu tilgangslausa tilfærslu, einfalda stjórnsýslukerfið, spara hjá ríkisstofnunum og um það hefur verið víðtæk samstaða og sátt og enginn mælt gegn því, hvorki gestir né aðrir sem hafa sent inn umsagnir til nefndarinnar. Ég legg því til að við samþykkjum það með þeim áorðnu breytingum sem koma fram í nefndarálitinu.

Aftur á móti, eins og fram hefur komið, víkur sú breytingartillaga sem hv. þm. Helgi Hjörvar leggur fram að allt öðru máli. Það mál hefur hins vegar ekkert verið rætt í nefndinni og væri miklu eðlilegra að hv. þingmaður kæmi með frumvarp þess eðlis og ynni það almennilega með þeim rökum og rökstuðningi sem til þyrfti í staðinn fyrir að reyna að lauma því sem laumufarþega hér í gegn. Ég legg því til að þingið hafni þeirri breytingartillögu en samþykki frumvarpið eins og það liggur fyrir frá nefndinni.