139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[11:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hef mikla samúð með fólki sem keypti einkasjúkdómatryggingu í þeirri trú að þegar og ef kæmi til útgreiðslu yrði hún ekki skattlögð. Ég hef mikla samúð með því. Þann þátt þessa frumvarps, eins og það kom upphaflega frá fjármálaráðherra, styð ég. En einkasjúkdómatryggingar mismuna fólki. Þær mismuna gegn þeim sem bera sjúkdómagen í sér. Það fólk fær ekki tryggingu eða þarf að kaupa hana dýrara verði en þeir sem eru sannanlega heilbrigðir eða eiga aðstandendur sem eru sannanlega heilbrigðir. Við vörum við því og þess vegna styð ég tillögu hv. þm. Lilju Mósesdóttur og mun greiða atkvæði eins og hún (Forseti hringir.) í þessu máli. Hún er að vara við tvöföldu kerfi eins og Bandaríkjamenn og ýmsar frjálshyggjuþjóðir búa við, eða þjóðir (Forseti hringir.) sem því miður hafa þurft að búa við frjálshyggjustjórnarfar.